Miðvikudagur 22. október 2008

296. tbl. 12. árg.
Björgvin Sigurdsson, Iceland’s commerce minister, said an agreement should be concluded by Wednesday.
Frétt Financial Times í gærkvöldi um væntanlegt samkomulag um að íslenskir skattgreiðendur greiði 600 milljarða króna skuld einkabanka í Bretlandi..

A greement! Nú virðist ríkisstjórnin endanlega búin að tapa vitglórunni. Og viðskiptaráðherranum þykir svo gaman að hlusta á sjálfan sig að hann getur jafnvel ekki beðið með að blaðra um fullkomna niðurlægingu Íslendinga þar til hún liggur fyrir.

Það gengur ekki að íslenskir skattgreiðendur taki ábyrgð á skuldum íslensks einkabanka við breska sparifjáreigendur. Og raunar ekki við nokkra aðra sparifjáreigendur heldur, hvort sem er íslenska eða erlenda. Þessar skuldir nema 600 milljörðum króna í Bretlandi einu, á því gervigengi krónunnar sem Seðlabanki Íslands heldur uppi um þessar mundir. Kannski verða þær nær 1.000 milljörðum krónum ef og þegar virkur markaður verður aftur til með krónuna. Þegar skuldir Landsbankans í Hollandi og víðar bætast við gæti þessi fjárhæð numið allri landsframleiðslu Íslendinga.

Það hafa verið færð mjög sannfærandi lögfræðileg rök gegn því að íslenska ríkið beri ábyrgð á skuldum Landsbankans vegna Icesave. Það er algjört lágmark að láta reyna á málið fyrir dómi.

Í kynningu á sjónvarpsþættinum Kompási sem mun hafa verið sýndur á Stöð 2 í fyrrakvöld segir Vilhjálmur Bjarnason formaður fjárfesta: „Íslenskt fjármálakerfi var fórnarlamb siðblindu, siðvillu og geðvillu.“

Fyrir skömmu kom hins vegar fram í fréttum að Vilhjálmur hefði tapað talsverðum fjárhæðum vegna hruns fjármálafyrirtækjanna. Hvernig stendur á því að maður geymir peningana sína í kerfi sem hann telur gegnsýrt af siðblindu, siðvillu og geðvillu?

Raunar ættu allir hagspekingarnir sem nú gefa sig fram við fjölmiðla og telja sig hafa séð hrunið fyrir að fá þá spurningu hvort þeir hafi fylgt orðum sínum á einhvern hátt eftir með gjörðum. Seldu þeir hlutabréf í bönkunum, breyttu þeir krónum sínum í aðra mynt, greiddu þeir upp gjaldeyrislánin sín?