Fimmtudagur 23. október 2008

297. tbl. 12. árg.

V efþjóðviljinn vitnaði í gær til orða Vilhjálms Bjarnasonar formanns félags fjárfesta. Vilhjálmur hefur að undanförnu verið kynntur þjóðinni sem maðurinn sem varaði við glannaskap í fjármálum. Vilhjálmur segir íslenskt fjármálakerfi hafa verið „fórnarlamb siðblindu, siðvillu og geðvillu“.

Stærstu vandamál margra fyrirtækja og heimila um þessar mundir eru lán í erlendri mynt. Menn keyptu lóðir, fasteignir og alls kyns annað skran hér á landi á uppsprengdu verði fyrir það sem virtist ódýrt erlent lánsfé. Höfuðstóll og afborgarnir slíkra lána hafa hins vegar snarhækkað að undanförnu vegna gengisfalls íslensku krónunnar.

Hinn 19. febrúar á síðasta ári fjallaði Morgunblaðið um fjármál fjölskyldunnar. Blaðið leitaði ráða hjá Vilhjálmi Bjarnasyni viðskiptafræðingi, húsbyggjanda og formanni félags fjárfesta um hvaða húsnæðislán væru nú heppilegust. Um lán í erlendri mynt sagði Vilhjálmur:

Mér finnst hræðsluáróður íslensku bankanna um að Íslendingar verði að hafa tekjur í erlendum myntum undarlegur því öll höfum við tekjur í íslenskum krónum sem fylgja erlendum myntum þegar til lengri tíma er litið. Þær leiðbeiningar bankanna um að viðkomandi lántakandi verði að hafa tekjur í erlendum gjaldeyri til að geta tekið erlent lán eru að hluta til réttar, en byggjast á því að viðkomandi einstaklingur sé asni. Sá hinn sami hlýtur að geta stýrt fjármálum sínum og notfært sér í ofanálag lægri vexti í erlendum myntum en bjóðast hér heima.

Síðan Vilhjálmur veitti þessi ráð – þvert á ráðleggingar bankanna – hafa erlendar myntir snarhækkað í verði. Þeir sem fóru að ráðum Vilhjálms eru í hrikalegri stöðu. Lánin og afborganirnar hafa hækkað um 50 til 100% en eignirnar eru í frjálsu falli. En eins og Vilhjálmur orðar það þurfa menn að vera asnar til að lenda í vandræðum með þessi lán. Hér eru mín heilræði en ef þú ferð eftir þeim og lendir í vandræðum ertu asni.

Í viðtali Morgunblaðsins við Vilhjálm húsbyggjanda kemur jafnframt fram að hann hafi ákveðið að taka sjálfur húsnæðislán í svissneskum frönkum. Blaðið segir raunar að Vilhjálmur ætli að „veðja á svissneska frankann“ og má segja að það sé ekki algalið orðalag um athæfið. Vilhjálmur segir svo:

Svissneski frankinn stendur í dag sterkur og gæti því lækkað og vextir eru fremur lágir. Mér sýnist að ef ég yrði svo fyrir 7-8% áfalli myndi ég vinna það upp á einu til tveimur árum miðað við það að taka lán í íslenskum krónum og hugsanlega hafa ávinning eftir það.

Gengistryggð lán eru hugsanlega léttari af því gefnu að menn taki lánin á réttum tíma, en þá þurfa þeir að gera svona stúdíu, eins og ég er nýlega búinn að gera á lánamarkaðnum fyrir mig persónulega.

Frá því Vilhjálmur gerði sína stúdíu á markaðnum og ákvað að taka fasteignalán í svissneskum frönkum hefur frankinn hækkað um 85% gagnvart krónunni. En þar sem Vilhjálmur er væntanlega enginn asni hefur hann sjálfsagt snúið sig út úr því með einhverjum ráðum.

Nú er Vilhjálmur Bjarnason út af fyrir sig ekkert sérstakt áhugamál Vefþjóðviljans. Hann er miklu frekar svolítið dæmigerður fyrir ákveðinn hóp manna sem er hávær þessa dagana. Flestir koma úr hagfræðideildum háskólanna. Þessi hópur heldur að það sé allur munur í heiminum á því að bankarnir lögðu upp laupana og því að þeir hefðu getað haldið áfram að hlaupa út um móa og mela. Þessir spekingar gleyma því að menn hafa aldrei fullkomna stjórn á öllum málum, jafnvel ekki bankastjórar með herskara hagfræðinga sér við hlið. Heimurinn er ekki eins einfaldur og línuritin á krítartöflunum í háskólunum. Þrátt fyrir allar „stúdíur“ gerast furðulegir hlutir sem menn ráða ekki við. Svissneski frankinn hækkar ekki um 7-8% á einu ári heldur 78%.

Í raun hefðu spámennirnir úr hagfræðideildum háskólanna hér á landi aðeins þurft að segja Íslendingum eitt á undanförnum tveimur árum: Tryggið að ábyrgð vegna Icesave lendi ekki á íslenskum skattgreiðendum ef allt fer á versta veg. Var nokkur þeirra sem benti á að þarna væri ógn við sjóndeildarhringinn sem gæti sligað ríkissjóð Íslands?