Þriðjudagur 21. október 2008

295. tbl. 12. árg.

V ítt og breitt um hinn vestræna heim er fjármálastofnunum nú bjargað frá þroti með fixi úr vösum skattgreiðenda. Í gær tók sænska velferðarkerfið til að mynda sænska bankakerfið upp á arma sína. Þetta gerist eiginlega alls staðar nema á Íslandi. Hér urðu tveir bankanna greiðsluþrota vegna vandræða við skammtímafjármögnun og sá þriðji og langstærsti var knésettur af breskum yfirvöldum. Það má vel vera að íslenskir stjórnmálamenn hafi viljað fara sömu leið og starfsfélagar þeirra í öðrum löndum og ausa glórulausum fjárhæðum í bankana til að halda þeim gangandi. En íslenska bankakerfið var einfaldlega of stór biti fyrir 300 þúsund skattgreiðendur.

Og bankar eiga að fá að fara í þrot í friði fyrir ríkisvaldinu þótt auðvitað sé miður að bankamenn missi vinnuna og þeir og aðrir tapi sparifé sínu. Daglega leggja menn upp laupana í alls kyns öðrum atvinnurekstri og tapa öllu sem þeir höfðu lagt í reksturinn. Enginn segir neitt við því. Það sama á að gilda um banka þótt mikilvægir og stórir séu. Það er áhætta sem fylgir því að leggja atvinnurekstri til fé, hvort sem það er hlutafé eða sparifé.

Það er alls ekki óhugsandi að þegar til lengri tíma er litið kunni íslenska leiðin úr fjármálakrísunni að vera sú skásta að þessu leyti. Hér fá hluthafar og stjórnendur bankanna stóran skell. Þeir missa vinnuna og eigur sínar og í sumum tilvikum standa aðeins eftir skuldir. Það minnist enginn lengur á kaupréttarsamningana sem fuðruðu upp í hruninu. Það hefur enginn áhuga á stöðu þeirra sem tóku lán til að fjármagna kaupréttinn. Nú standa lánin eftir en hlutabréfin eru að engu orðin. En það er mikilvæg lexía fyrir alla að ríkið kom ekki hlaupandi með kút og kork líkt og er að gerast í löndunum í kringum okkur.

Það sem vantaði hins vegar í þessa kennslustund er að almennir viðskiptavinir bankanna njóti jafnræðis. Með „neyðarlögunum“ mánudaginn 6. október voru almennir innistæðueigendur til að mynda settir skör ofar en aðrir viðskiptavinir (lánveitendur) bankanna. Það var illa gert að breyta röð kröfuhafa með þessum hætti og sendi ruglingsleg skilaboð til umheimsins. Áhrifin af neyðarlögunum 6. október hafa eiginlega ekkert verið rædd en þegar frá líður munu þau vafalaust verða einn umdeildasti þáttur málsins. Það er vandséð að án neyðarlaganna hefðu bresk stjórnvöld haft nokkurt tilefni til að úthrópa Ísland sem spilavíti og setja landið í efnahagslega herkví.

Sennilega átti íslenska ríkið ekki að grípa til sérstakra aðgerða vegna greiðsluþrots bankanna heldur leyfa kröfuhöfum að ljúka málinu. Það er ekki síður hagur kröfuhafa en ríkisins að skaðinn sé lágmarkaður. Væri íslenska bankakerfið verr komið í höndum erlendra kröfuhafa en íslenskra stjórnmálamanna?

Til viðbótar við neyðarlögin virðist ríkið ætla að taka á sig hluta skulda bankanna, svo sem vegna Icesave reikninga Landsbankans, jafnvel þótt það liggi alls ekki fyrir að ríkinu beri að gera það lögum samkvæmt.