Miðvikudagur 15. október 2008

289. tbl. 12. árg.
Ekki hvílir nein ábyrgð á ríkissjóði vegna stöðu innstæðna í Tryggingasjóðnum.
– Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttalögmaður í grein í Morgunblaðinu í morgun.

Í slenskir embættismenn hafa þegar samið við stjórnvöld í Hollandi um að ríkissjóður Íslands greiði hollenskum hverjum viðskiptavini Icesave reikninga Landsbankans allt að 20.887 evrur (um 3 milljónir króna). Svipað samkomulag við bresk stjórnvöld mun vera í farvatninu. Ríkissjóður Íslands tekur á sig allt að 600 milljarða króna skuldbindingu vegna þessa. Er þetta samkomulag byggt á því að hér sé starfandi Tryggingasjóður innistæðna samkvæmt reglum Evrópusambandsins sem Íslendingar hafa leitt í lög með EES samningnum. Í Morgunblaðinu á mánudaginn sagði í frétt um málið:

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir þessa lausn óumflýjanlega. Um sé að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafi þurft að semja um.

Nú segja Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hins vegar að þeir telji að innlánstryggingarkerfin beri ábyrgð á skuldbindingum sínum með því fjármagni sem þar finnst en öðru ekki. Þeir telja að ríkissjóði beri ekki að leggja sjóðnum til fé. Og fáir Íslendingar þekkja Evrópurétt betur en Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og höfundur fræðirita um Evrópusambandið og EES. „Við teljum augljóst að hlutverk Tryggingasjóðsins er ekki að takast á við allsherjar bankahrun eins og gerst hefur hér á landi. Ef svo hefði verið hefði þurft að greiða gífurlegar fjárhæðir inn í hann sem næmi mörgum tugum prósenta af heildarinnlánum“, segja Stefán og Lárus í grein sinni í morgun.

Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra blaðrar um það í fjölmiðla að Íslendingar hafi „þjóðréttarlegar skuldbindingar“ í þessum efnum þegar það bendir margt til að svo sé ekki?

Liggur það ekki augum uppi að ef ríkisvaldinu er ætlað að bera ótakmarkaða ábyrgð á innlánum banka þá er sérstakur tryggingasjóður af þessu tagi óþarfur?

Og var ekki ríkisstjórnin búin að marglýsa því yfir að ríkissjóður Íslands væri skuldlaus og alveg sérstaklega skuldlaus í útlöndum? Hvernig stenst það ef á sama tíma hlóðst upp 600 milljarða skuldbinding á ríkissjóð í Bretlandi og Hollandi?

Á óvissutímum skiptir miklu máli að menn sýni stillingu og tali af varúð. Íslendingar mega almennt eiga það þeir hafa sýnt mikla yfirvegun undanfarna daga. Tugir þúsunda hafa tapað stórum hluta af sparifé sínu, aðrar eignir flestra Íslendinga eru að falla í verði og þúsundir eru að missa vinnuna. Það er Íslendingum til sóma að þeir missi ekki jafnvægið við þessar aðstæður. Það gefur von um framhaldið. Án efa vegur það þungt í þessu sambandi að Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur sýnt ótrúlegt æðruleysi síðustu daga.