Þriðjudagur 14. október 2008

288. tbl. 12. árg.
Það tók vestræn ríki 70 ár að gleyma því hvernig kapítalisminn virkar. Mikilvægasta lexían af þessum hamförum hlýtur að vera að koma á fót raunverulegu fjármálaeftirliti hér á landi.
– Guðmundur Andri Thorsson í grein í Fréttablaðinu í gær.

G uðmundur Andri Thorsson rithöfundur er ekki einn um að krefjast aukins opinbers eftirlits með fyrirtækjum um þessar mundir. Þessi krafa er heldur ekki alveg ný af nálinni. Það eru aðeins nokkur ár síðan gerðar voru miklar kröfur víða um lönd um hertar reglur og aukið opinbert eftirlit með fyrirtækjarekstri. Tilefnið var gjaldþrot Enrons og fleiri stórra fyrirtækja. Þessum kröfum var að sjálfsögðu mætt. Nýjar reglur, aukið eftirlit og meiri kostnaður fyrir fyrirtækin og skattgreiðendur.

Nú hafa mörg fjármálafyrirtæki farið illa að ráði sínu eftir að seðlabankar heimsins dældu ódýru fjármagni út í kerfið með þeim afleiðingum að fyrirtæki skuldsettu sig óhóflega og fjárfestingar, til dæmis í íbúðarhúsnæði í Bandaríkjunum, urðu óraunhæfar.

Ekki er að sökum að spyrja. Nú vilja allir meira eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Guðmundur Andri vill til að mynda „raunverulegt“ fjármálaeftirlit hér á landi. Þó vill svo til að hér á landi starfar fjármálaeftirlit ríkisins auk seðlabanka ríkisins og viðskiptaráðuneytis. Á síðasta ári var meira að segja skipaður sérstakur viðskiptaráðherra en áður hafði viðskiptaráðherrann einnig þurft að fylgjast með iðnaði í landinu sem iðnaðarráðherra.

En er þetta fjármálaeftirlit „raunverulegt“? Tja, hvað þarf það til að vera raunverulegt? Guðmundur Andri skýrir það ekki nánar, ekki frekar en nokkur annar sem ákallar aukið eftirlit. En ætli hann sé ekki að biðja um aukið eftirlit, fleiri starfsmenn, meiri kostnað? Kannski fjármálaeftirlitið hafi verið skorið niður við trog undanfarin ár? Er ekki alltaf verið að kvarta undan niðurskurði á fjárlögum þótt ríkisútgjöldin aukist að vísu ár frá ári?

Samkvæmt fjárlagafrumvörpum áranna 2006 til 2009 þrefaldaðist rekstrarkostnaður fjármálaeftirlitsins frá 2006 til 2008 og en átti að gefa í á næsta ári.

Hvern einasta virka dag ársins fara nú þegar nokkrar milljónir króna í fjármálaeftirlit, nær þúsund milljónir á ári. Er það „raunverulegt“ eftirlit? Ef svo er ekki hlýtur að vakna spurningin hvað þarf eiginlega að eyða miklu í eftirlit til að það teljist raunverulegt.

Fyrst og síðast ættu menn þó að spyrja hvort allt þetta opinbera eftirlit skapi falskt öryggi og geri menn andvaralausa.