Mánudagur 13. október 2008

287. tbl. 12. árg.
Þegar hagfræðingar og sagnfræðingar framtíðar munu skoða fjármálakreppu samtímans munu þeir líklega komast að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir góðan vilja og mikið streð stjórnmála- og embættismanna hafi afskipti þeirra lengt og dýpkað kreppuna. Seðlabankinn, fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið verða sökuð um að hafa opinberlega lýst vantrausti á efnahagskerfið sem þeim var ætlað að vernda.
– Jonathan Macey prófessor við Yale í grein í The Wall Street Journal 11. október 2008.

V íða um lönd standa nú öll spjót á seðlabönkum og fjármálaeftirliti. Þessar ríkisstofnanir eru sakaðar um ranga peningastefnu, misráðnar björgunaraðgerðir og að hafa brugðist eftirlitshlutverki sínu. Ríkisstjórnir stærstu hagkerfa heimsins standa frammi fyrir hruni fjármálastofnana og þeirri spurningu hvort leggja eigi þeim lið með fjármunum skattgreiðenda. Nær undantekningarlaust er henni svarað játandi og ótrúlegar fjárhæðir streyma úr vösum skattgreiðenda inn í fjármálafyrirtækin.

Jonathan Macey lagaprófessor gagnrýndi þetta ráðslag yfirvalda harkalega í grein í The Wall Street Journal á laugardaginn og segir afskipti bandaríska seðlabankans, fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins hafa dregið úr trausti á markaðnum.

Hann segir að leiðangur seðlabankans til björgunar Bear Stearns hafi verið mistök því þar með hafi hreingerningarstarf markaðarins verið truflað og örvænting gripið um sig. Seðlabankinn lánaði J.P. Morgan 29 milljarða dala til að gleypa Bear Stearns. Ben Bernanke seðlabankastjóri réttlætti lánveitinguna með því að þrot Bear Stearns hefði leitt til öngþveitis vegna riftunar á óteljandi fjármálagerningum. Síðar lentu Lehman Brothers í sömu vandræðum og Bear Stearns en var ekki bjargað af seðlabankanum. Það túlkaði markaðurinn einfaldlega þannig að seðlabankann skorti afl til þess og ekki dró það úr örvæntingunni. Macey gagnrýnir tímabundið bann fjármálaeftirlitsins við skortsölu því skortsala sé aðhald gegn of mikilli skuldsetningu fyrirtækja. Að auki hafi fyrirtækjum einnig verið gert erfitt að bergðast við skortsölu með því að kaupa eigin bréf. Hvarvetna séu settar takmarkanir á agavald markaðarins.

Og nú ætli stjórnvöld að bæta gráu ofan á svart með því að kaupa eitruð fasteignabréf fyrir 700 milljarða dala.

Opinberar aðgerðir eins björgun Bear Stearns, takmarkanir á skortsölu og hin nýja skuldbinding ríkisins um kaup á eitruðum fasteignabréfum bera allar í sér sömu grunvallarmistökin: Þær koma í veg fyrir að markaðurinn komi skikki á lánastofnanir sem eru sekar um óábyrga skuldsetningu og hafa teflt á tæpasta vað. Að auki bitna þær á stjórnendum sem hafa hagað sér með ábyrgum hætti, fjárfest af varkárni, haldið skuldum í lágmarki og unnið hörðum höndum að endurfjármögnun þegar þess hefur verið þörf. Atlaga fjármálaeftirlitsins að skortsölum bitnar á útsjónarsömum fjárfestum sem lagt hafa fé og vinnu í að greina fyrirtæki sem eru of skuldsett og með ofmetnar eignir.

N ú þegar breskir kratar með Gordon Brown forsætisráðherra í fararbroddi hafa komið verðmætasta fyrirtæki Íslands í þrot og kyrrsett eigur Íslendinga í Bretlandi fyrir hundruð milljarða króna á grundvelli laga gegn hryðjuverkum leggur skoðanasystir þeirra á Íslandi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, það til að sjálfstæði landsins verði líka gefið eftir og lagt í skúffu í Brussel.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra telur einnig best að Íslendingar feli ókjörnum embættismönnum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins stjórn mála á Íslandi áður en landið afsalar sér sjálfstæði sínu í Brussel. Þetta vill iðnaðarráðherrann gera gegn lánafyrirgreiðslu sjóðsins. Hvenær ætli menn átti sig á því að lausnin á vandamálum sem tengjast of miklum lántökum liggur ekki endilega í meiri lántökum?