Helgarsprokið 12. október 2008

286. tbl. 12. árg.
Nú heyri ég til dæmis að í þessari viku þá voru lögfræðingarnir ennþá á eftir fólki. Það hætti ekkert, og það er spurning hver segir call off the dogs. Kemur ekki einhvern tímann að því tímabili núna í þessu ástandi að það verði bara sagt stopp í einhvern tíma.
– Hallgrímur Thorsteinson í þætti sínum Vikulokunum á Rás 1, 11. október 2008.

G uði sé lof fyrir Íbúðalánasjóð, étur nú hver upp eftir öðrum. Íbúðalánasjóður starfar með ábyrgð ríkisins. Þetta þýðir að lendi sjóðurinn í erfiðleikum er ríkið að fullu ábyrgt fyrir skuldbindingum hans og getur ekki valið að taka hag eins kröfuhafa fram yfir annars eins eða ákveðið að tryggja fé tiltekinna aðila eins og reynt er að gera með neyðarlögum sem sett voru í upphafi síðustu viku. Allir kröfuhafar fá sitt og skattgreiðendur munu án undankomuleiðar borga brúsann. Um síðustu áramót voru heildareignir Íbúðalánasjóðs (ÍLS) rúmir 600 milljarðar en eigið fé rúmlega 20 milljarðar króna. Er einhver sem trúir því að þessir tuttugu milljarðar dugi fyrir þeim áföllum sem sjóðurinn mun fyrirsjáanlega verða fyrir á næstu árum? Ein þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur boðað er að Íbúðalánasjóður taki yfir íbúðalán viðskiptabankanna sem nema álíka upphæð og útlán ÍLS. Þar af er fimmtungur í gengistryggðum  lánum. Það blasir við að kostnaður af þessum aðgerðum og fyrirsjáanlegum útlánatöpum sjóðsins af núverandi lánum, sem mun falla á ríkissjóð, mun nema hundruðum milljarða.

Lofað hefur verið að allar innstæður í bönkunum verði tryggðar. Gildi þar einu hvort um er að ræða venjulegar sparifjárinnstæður eða eignir stórra fjárfesta sem ætla verður að hafi gert sér grein fyrir að slík viðskipti væru ekki áhættulaus. Það er ekki að ástæðulausu sem betri ávöxtun hefur fengist undanfarið á bankareikningum en skuldabréfum ríkisins. Skuldabréf ríkisins hafa verið með ótakmarkaðri ábyrgð ríkisins en bankareikningar ekki. Auk þessa munu ábyrgðir á hundraða milljarða innstæðum bankanna erlendis lenda á ríkinu. Stjórnmálamönnum þykir hins vegar ekki nóg að gert og hafa lýst yfir vilja til að hneppa skattgreiðendur í enn frekari ánauð til að aðstoða þá sem lögðu áhættufé í verðbréfasjóði. Ef heppnin er með okkur verður kostnaðurinn af því ekki nema nokkrir tugir milljarða.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins verði rúmir 450 milljarðar en útgjöld rúmlega 507 milljarðar. Hallinn á rekstri ríkisins átti því að vera 57 milljarðar. Nú er erfitt að spá um hvaða áhrif atburðir síðustu daga munu hafa á tekjur en í töflunni hér fyrir neðan er reynt að gefa hugmynd um mögulega lækkun nokkurra helstu tekjustofna ríkissjóðs. Upphæðir eru í milljörðum króna.

 

Frumvarp

Lækkun

Tekjuskattar einstaklinga

111.0

15%

16.7

Fjármagnstekjuskattur einstaklinga

23.5

75%

17.6

Tekjuskattar lögaðila

27.2

75%

20.4

Tryggingagjald

42.0

15%

6.3

Eignaskattar

8.4

25%

2.1

Virðisaukaskattur

145.1

20%

29.0

Vörugjöld á annað en bensín

25.6

25%

6.4

Gjöld á bensín og olíu

9.9

10%

1.0

Samtals

392.7

 

99.5

Miðað við þessar tölur verður halli af rekstri ríkisins á næsta ári meira en 150 milljarðar. Landsframleiðsla árið 2007 var tæpir 1300 milljarðar. Það stefnir því í að halli af rekstri ríkisins verði talsvert meiri en tíundi hluti landsframleiðslu. Líklegt verður að telja að í árslok 2009 verði skuldir ríkisins á sama stærðarþrepi og landsframleiðsla, um það bil 100% af landsframleiðslu. Á myndinni hér á neðan má sjá skuldir ríkissjóðs sem hlutfalla af landsframleiðslu í lok samdráttarskeiðs tíunda áratugarins og við upphaf hagvaxtarskeiðs sem nú er lokið með hvelli.


 
Skuldir ríkissjóð sem hlutfall af landsframleiðslu. Grafið er fengið af vef fjármálaráðuneytisins.

Í lok samdráttarskeiðsins á tíunda áratugnum urðu skuldir ríkisins mest rúmlega helmingur landsframleiðslu. Nú stefnir í að við upphaf kreppu, sem staðið gæti um allnokkurt skeið, verði skuldir ríkisins um það bil jafnar landsframleiðslu. Ef stjórnmálamenn átta sig ekki á breyttu umhverfi er hætt við að skuldirnar verði orðnar tvöföld landsframleiðsla að nokkrum árum liðnum. Margir hafa farið geyst á þeim uppgangstímum sem nú eru að baki. Það voru ekki einungis „útrásarvíkingarnir“ sem lifðu hátt. Stór hluti almennings hreifst með og lifði langt um efni fram. Síðustu mánuði hefur verið ljóst að komið væri að skuldadögum. Greiðsluerfiðleikar þeirra sem eyddu um efni fram voru byrjaðir löngu áður en bankarnir hrundu. Á næstu mánuðum mun þeim fjölga verulega sem ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Það er algjörlega óraunhæft að ríkið komi í veg fyrir gjaldþrot þeirra allra. En stemningin í opinberri umræðu er með ólíkindum. Flestum virðist þykja sjálfsagt að stjórnmálamenn lofi björgunaraðgerðum fyrir tugi milljarða oft á dag. Sumir virðast telja að enginn eigi að sitja í súpunni nema skattgreiðendur. Orð Hallgríms Thorsteinsonar útvarpsmanns hér að ofan lýsa þessu vel. Honum þykir sjálfsagt að hætt verði að innheimta skuldir, jafnvel þótt vanskil tengist á engan hátt hruni bankakerfisins. Það er stórhættulegt þegar stjórnvöld senda út þau skilaboð að enginn beri lengur ábyrgð á eigin fjármálum. Þá munu skuldarar sem möguleika hafa á að standa í skilum og berjast áfram missa alla löngun til þess og bíða einfaldlega eftir því að þeim verði bjargað eins og öllum öðrum.