Fimmtudagur 16. október 2008

290. tbl. 12. árg.

F jármálakerfi heimsins virðist einn stór sósíalismi, allt á ábyrgð ríkisins. Ríkisseðlabankar prenta og skammta peninga og ákveða verð (vexti) á þeim. Í hvert sinn sem seðlabönkunum mistekst það hlutverk sitt að viðhalda stöðugleika og verðbréfamarkaðir fuðra upp koma stjórnmálamennirnir hlaupandi með peningahrúgur og kasta á bálið. Þetta er einmitt að gerast um þessar mundir. Hrikalegar fjárhæðir eru fluttar frá skattgreiðendum til fjármálafyrirtækja til að bjarga þeim frá axarsköftum sem þau gerðu meðal annars vegna þess að seðlabankar sendu röng skilaboð út á markaðinn með alltof ódýru fjármagni.

Það er í raun ráðgáta hvers vegna stjórn peningamála var skilin eftir hjá ríkinu þegar einkavæðingarbylgja fór um Vesturlönd. Það hefur vart farið fram alvöru umræða um einkavæðingu peningakerfisins þótt það liggi fyrir að ríkisrekstur seðlabanka hefur ekki reynst sérstaklega vel. Ísland er alveg sérlega „gott“ dæmi um þessa óstjórn ríkisins. Áratugum saman mistókst Seðlabanka Íslands að viðhalda verðlagi stöðugu og ríkisbankar, byggða- og atvinnuvegasjóðir fóru á hausinn eða nutu ríflegra framlaga frá skattgreiðendum. Seðlabankanum tókst loks að halda verðlagi sæmilega stöðugu í nokkur ár en aldrei almennilega innan þeirra marka sem hann setti sér sjálfur. Þeirri tilraun lauk endanlega í síðustu viku þegar fjármálakerfi landsins hafði hrunið til grunna. Nú blasir við nýtt verðbólgutímabil nema eitthvað alveg sérstakt gerist.

Hvað sem menn segja um sjálfstæði seðlabanka Vesturlanda þá eru þeir ríkisstofnanir. Stjórnmálamenn gera hróp að þeim ef þeir dæla ekki ódýrum peningum út í hagkerfið fyrir kosningar og „fulltrúar“ atvinnulífsins kalla látlaust eftir vaxtalækkunum fyrir umbjóðendur sína. Seðlabanki Bandaríkjanna stóðst til að mynda ekki þrýstinginn eftir 11. september 2001 og lækkaði vexti í stað þess að leyfa markaðnum að taka höggið. Í kjölfarið varð til húsnæðisbóla sem farið hefur líkt og eiturskammtur um æðar fjármálakerfisins og valdið vantrausti víða um lönd. Lágir vextir Seðlabanka Evrópu hafa einnig blásið upp húsnæðisbólu á Spáni. Þar voru byggð jafnmörg hús í nokkur ár og í öllum öðrum ríkjum Evrópusambandsins samanlagt. Nú stendur 1 milljón íbúða tóm á Íberíuskaganum.