Miðvikudagur 1. október 2008

275. tbl. 12. árg.

Þ að vofir mikil ógn yfir hinum siðmenntaða heimi. Það er hugsanlegt að í embætti varaforseta Bandaríkjanna verði kosið algert flón, jafnvel á mælikvarða repúblikana sem eru þó flestir ef ekki allir flón, eins og allir upplýstir og gáfaðir Evrópubúar vita.

Þessi nýjasti afglapi repúblikana hefur marga ókosti sem tíundaðir hafa verið samviskusamlega í evrópskum fjölmiðlum, sem undanfarna daga hafa horft með skelfingu á stóran hluta Bandaríkjamanna hrífast af frambjóðandanum.

Verst af öllu er að frambjóðandinn hefur ekki komið til Evrópu. Að vísu eru Bandaríkin heill heimur út af fyrir sig, fimmtíu ólík ríki sem mynda framsæknasta stórveldi heims, en það breytir engu. Og þó því hafi aldrei verið haldið gegn evrópskum stjórnmálamanni ef hann hefur ekki gert sér tíðförult til Bandaríkjanna þá sjá allir í hendi sér að varaforseti Bandaríkjanna verður að hafa skotist yfir til Evrópu.

Þá mun þessi frambjóðandi ekki hafa rétta trú á upphafi alheimsins. Frambjóðandinn er sagður trúa á svokallaða „vitræna hönnun” og er þar með augljóst að hann kemur ekki til álita. Hann er til dæmis ólíkur Barack Obama sem telur Guð hafa skapað heiminn, en allir Evrópubúar vita að Obama er rétti maðurinn í forsetaembættið.
Raunar hefur þessi frambjóðandi rangar skoðanir á öllum málum. Hann er til dæmis á móti fóstureyðingum og þó þær séu hvorki á valdsviði forseta né varaforseta Bandaríkjana, og andstaða við fóstureyðingar sé svo útbreidd í Bandaríkjunum að það er aðeins með ókosnum dómurum sem fóstureyðingasinnum tókst að koma þeim í gildandi rétt, þá blasir við að það er rétt hjá Evrópubúum að svona frambjóðandi má ekki ná neinum metorðum.

Bandarískir fjölmiðlar hafa undanfarin ár haft afar lítinn áhuga á því að kafa í feril Baracks Obamas. Kemur það sér vel, því þá eru þeir óþreyttir þegar kemur að því mikilvæga máli að rannsaka varaforsetaefni repúblikana í þaula. Fyrstu dagana urðu þeir að láta sér nægja að hamra á að eiginmaður frambjóðandans hafði fyrir 22 árum verið tekinn fullur undir stýri. Á sama tíma var Barack Obama, ef marka má hann sjálfan, einhvers staðar að taka inn kókaín, en ölvunarakstur eiginmanns varaforsetaefnis er auðvitað þýðingarmeira en kókaínneysla forsetaefnis.

Og þannig mætti áfram rekja hversu slæmur frambjóðandi þetta varaforsetaefni er, eins og allir menntamenn Evrópu vita. Rétt eins og bandarískir fjölmiðlamenn. New York Times og Washington Post eru til dæmis iðulega með neikvæðar fréttir af frambjóðandanum á forsíðu sinni, og þetta eru „stórblöð” eins og íslensku vinstrifjölmiðlarnir þreytast ekki á að minna á í hvert sinn sem þeir vitna í þau.

En meginsök varaforsetaefnisins er, þó þess sé sjaldnast getið í fréttum , þó annað. Það er kona – en jafnframt repúblikani, hlynnt öflugum vörnum og frelsi einstaklingsins, en andvíg háum sköttum, fóstureyðingum og auknum umsvifum alríkisins. Ef að einstaklingur með þessar skoðanir yrði sú kona Bandaríkjanna sem hæst metorð hefði fengið í kosningu, hvernig færi sjálfsmynd bandarískra vinstrikvenna þá? Og hvernig færi með þann fjarstæðukennda áróður demókrata að það sé í þeirra röðum og ekki annarra sem konum sé gert hátt undir höfði?