Fimmtudagur 2. október 2008

276. tbl. 12. árg.

V iðskiptaráð gaf í sumar út skýrsluna Útþensla hins opinbera – orsakir, afleiðingar og úrbætur þar sem glögglega má sjá hve hið opinbera hefur stækkað á undanförnum árum. Þingmenn munu hafa fengið eintak af skýrslunni og ættu að hafa það uppi við nú þegar þeir hafa fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar. Kannski hugsar einhver þeirra með sér að ef til vill sé óþarft að auka ríkisútgjöldin um tugi milljarða á milli ára. Þjónusta hins opinbera hafi kannski bara verið alveg sæmileg fyrir nokkrum árum þegar útgjöld ríkisins voru hundrað milljörðum króna lægri. Útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hafa aukist svo hratt á undanförnum áratugum á Íslandi að Ísland er komið langt fram úr meðaltali OECD ríkjanna eins og sjá má á þessari mynd úr skýrslu Viðskiptaráðs.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þær breytingar sem þingið gerir á frumvarpi fjármálaráðherrans eru fyrst og fremst til hækkunar á útgjöldum og er þó ríkisstjórnin jafnan búin að hækka flesta liði hressilega frá fyrra ári. Nær óþekkt er að útgjöld til málaflokka lækki í meðförum þingsins.

Eftir að fjármálaráðuneytið hefur lagt lokahönd á mótun fjárlaga samkvæmt tillögum ráðuneyta er frumvarpið lagt fyrir Alþingi. Fjárlög taka ýmsum breytingum í afgreiðslu á þingi, þ.e. frá því það er lagt fyrir þingið og þar til það er leitt í lög. Þar skila þingnefndir álitum og breytingartillögum á þeim hluta fjárlaganna sem varða málefnasvið þeirra og ríkisstjórn og þingflokkar leggja einnig iðulega fram breytingartillögur á frumvarpinu. Þessar breytingar eru í sjálfu sér ekki óeðlilegar í ljósi þess að Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið. Engu að síður er óheppilegt að þessar breytingar hafi fyrst og fremst falið í sér þrýsting til aukinna útgjalda. Þetta má hvað gleggst sjá af því að útgjöld hækka nær undantekningalaust í meðförum Alþingis.

Og þegar búið er að auka öll útgjöld í ríkisstjórn, í fjárlaganefnd og við umræður í þingsölum mætti ætla að skattgreiðendur væru komnir í var. Ó nei.

Það er ekki eingöngu við þinglega meðferð fjárlagafrumvarpsins sem fjárheimildir aukast. Ráðuneytum og stofnunum gefst færi á að afla aukinna fjárheimilda eftir gildistöku fjárlaga með fjáraukalögum. Samkvæmt fjárreiðulögum (nr. 88/1997) er tilgangur fjáraukalaga einungis að leita eftir útgjaldaheimildum valdi ófyrirséð atvik því að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana sem ekki var gerð ráð fyrir í fjárlögum ársins. Fjáraukalög eiga þannig að heyra til undantekningar, enda eru útgjaldatilefnin þröngt afmörkuð í fjárreiðulögum. Eins og sjá má í töflu hér neðar virðist það aftur á móti frekar regla en undantekning að gripið sé til fjáraukalaga. Því má segja að regluverkið hafi ekki gefið góða raun.