Mánudagur 29. september 2008

273. tbl. 12. árg.

H ún var að sumu leyti ósköp íslensk, umræðan sem um daginn fór fram um það hvort ráðherra hefði átt að fara til Kína á handboltaleik með forseta Íslands. Það er nefnilega svo dæmigert fyrir íslenska umræðu að menn geti rætt fram og til baka um kostnaðinn við slíka ferð, en hugsi varla út í þrjátíuþúsund milljóna árleg framlög til misþarfra vegaframkvæmda, tveggja milljarða framlög til menningarhúss, milljarð í íþróttamannvirki í Þorlákshöfn og svo framvegis og svo framvegis. En ef það er einhver þekktur að fá eitthvað, eins og ráðherra að þjóta á handboltaleik, þá vakna stundum varðmenn almannafjár.

En það er auðvitað sjálfsagt að fara vel með almannafé og ekki aðeins þegar kemur að stórum framkvæmdum. Og á tímum þegar stjórnvöld hvetja almenning til sparnaðar og hófs, þá er enn æskilegra en áður að þau gangi á undan með góðu fordæmi. Þó auðvitað eigi að skera mjög verulega niður opinberar framkvæmdir þá er sjálfsagt að utanlandsferðir ráðamanna verði líka munaður sem hóflega verði farið með. Utanríkisráðherra gæti til dæmis, til reynslu, eftirlátið öðrum þjóðum að stilla til friðar í miðausturlöndum og forseti lýðveldisins gæti hugsanlega falið jafnvel enn meiri sérfræðingum en sjálfum sér að ræða um loftslagsmál við yfirvöld í Bangladesh – svo aðeins tvö dæmi séu tekin.

En það eru fleiri ferðalög en áberandi ráðherra sem mætti spara. Hvað halda menn að það séu margir íslenskir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga erlendis dæmigerðan virkan dag? Allir sérfræðingarnir sem þurfa að vera á mánaðarlegum námskeiðum um eitthvert kerfi sem enginn veit hvort þeir þurfa í raun að nota, eða mæta á fund í einhverri nefnd sem ber einhverja skammstöfun sem enginn maður kann að lesa úr. Hvað ætli margir borgarstarfsmenn hafi farið til Ottawa og Detriot að kynna sér strætisvagnasamgöngur? Eða nýja strauma í holræsamálum? Og allar ráðstefnurnar sem hið opinbera styrkir innan lands, hvað af þeim ætli megi nú missa sín? Hver ætli kostnaðurinn sé við óþekkta embættismanninn, sem ekki þarf að óttast spurningar fjölmiðlanna? Skrifstofumanninn sem enginn þekkir þegar hann þrammar fram og til baka um flugstöðina, nýkominn af fundi norrænna skólasálfræðinga á Skáni.

Einn af þeim sem áttu erindi á ólympíuleikana í Peking er Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna. Sem kunnugt er verða leikarnir haldnir í Lundúnum eftir fjögur ár og Johnson þurfti því að vera við táknræna athöfn í lok leikanna. Um ferðalag sitt til Peking skrifaði hann við heimkomuna:

And by the way, I recommend going there in the luxury of British Airways World Traveller Class. Forget Business Class. Forget First Class. You’ll get just as much sleep in the back of the plane, and you’ll save yourself – or the taxpayer – a fortune.