Helgarsprokið 28. september 2008

272. tbl. 12. árg.
No one wins. One side just loses more slowly.
– Prez.

Í

Frægur frambjóðandi á sinn uppáhaldskarakter í The Wire.

maí síðast liðnum var frumsýndur lokaþátturinn í fimmtu og síðustu þáttaröðinni af The Wire. Þessi tíðindi hafa sennilega farið fram hjá flestum. Þátturinn sló aldrei almennilega í gegn og ólíkt mörgu öðru sjónvarpsefni er beinlínis óráðlegt að byrja að fylgjast með framvindu mála öðruvísi en að hefjast handa á fyrsta þætti og horfa svo – með sæmilega óskertri athygli – á alla 60 þættina í réttri röð.

Það er svo ekki ólíklegt að margir telji sig hafa annað og betra að gera við um það bil 60 klukkustundir en að glápa á imbann. Sér í lagi til að horfa á enn eina þáttaröðina um löggur og bófa í Bandaríkjunum. Það er í sjálfu sér skiljanlegt, en þessir þættir er reyndar af öðrum toga en venjulegt bandarískt glæpadrama. Það þarf fáeina þætti til að komast í gírinn, en við svo búið er tæpast mögulegt annað en að horfa á allt heila klabbið. Og komast hugsanlega að þeirri niðurstöðu að þetta sé nú kannski með því besta sem hefur verið samið fyrir imbakassann.

Þættirnir eru skrifaðir af Ed Burns, fyrrum lögreglumanni til 20 ára og David Simon, fyrrum blaðamanni, sem báðir störfuðu í Baltimore, sögusviði þáttanna. Þeir nálgast viðfangsefnið frá mörgum hliðum og búa í því skyni til fjölmarga karaktera, sem eru margir hverjir afar litríkir og eftirminnilegir. Fyrir utan framvindu þáttanna, þá leikur áhorfendum ekki síður forvitni um afdrif og örlög sinna uppáhaldskaraktera.

Fíkniefnabannið er bakgrunnurinn í The Wire. Tilgangsleysi þess er dregið nokkuð vel fram og ekki síst hvað starf lögreglunnar hefur skaðast stórkostlega af þess sökum. Hér er allri óskhyggju og vitleysu a la CSI varpað fyrir róða. Í allnokkrum borgarhlutum í stórborgum Bandaríkjanna felst starf lögreglunnar einna helst í máttlausri viðspyrnu gegn glæpum tengdum fíkniefnum með einum eða öðrum hætti. Engum sem fylgist með fréttum af fíkniefnum lætur sér detta í hug að bannið hafi skilað einhverjum árangri. Að minnsta kosti ekki ef mæla á árangurinn í því hvort tekist hafi að minnka framleiðslu þeirra, sölu, dreifingu og neyslu.

Það er hins vegar hægt að mæla handtökur og bandarísk yfirvöld hafa ekki slegið slöku við í þeim efnum; næstum 1,9 milljónir manna voru teknar höndum vegna gruns um fíkniefnalagabrot árið 2006, þó flestum sé svo sleppt til þess eins að verða handteknir aftur síðar. Þetta gerir víst eina handtöku á 17 sekúndna fresti. Og sem fyrr dregur ekkert úr viðskiptum með fíkniefni. Þessar handtökur skil ekki frekar árangri en aðrar „lausnir“ yfirvalda síðustu áratugi. Það verða alltaf til kaupendur að fíkniefnum og á meðan svo er verður alltaf til einhver til að selja þeim það sem þeir vilja kaupa.

Þessi handtökutölfræði er handritahöfundum The Wire hugleikin, enda virðast pólítíkusar, saksóknarar og yfirmenn lögreglunnar fátt annað geta gert en að handtaka aftur og aftur sama fólkið, til að sýna fram á einhvern mælanlegan árangur. Reyndar árangur sem hefur engin áhrif á fíkniefnaviðskipti, en á sinn hátt hljómar það betur að hafa handtekið 10% fleiri í ár en í fyrra. Skárra en ekkert, samt algerlega gagnslaust.

Tilvitnunin hér að ofan er í einn karakterinn í þáttunum. Það fer engin með sigur af hólmi í þessu stríði; ein fylkingin er einfaldlega að að tapa því hægar en hin. Miðað við árangur fíkniefnabannsins síðustu áratugi, bæði hér og alls staðar annars staðar í heiminum, hlýtur öllum að vera ljóst hverjir eru að tapa þessu stríði hraðast.