Laugardagur 27. september 2008

271. tbl. 12. árg.

N ú bíða sjálfsagt margir spenntir eftir fjárlagafrumvarp næsta árs. Slær ríkisstjórnin met sitt frá síðustu fjárlögum þar sem útgjöld voru aukin um fimmtung milli ára? Síðustu þrjú ár hafa verið metár í tekjum og eyðslu hins opinbera á flesta mælikvarða. Hlutfall tekna hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, af vergri landsframleiðslu var 48% á síðasta ári. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra en undanfarin ár. Það má því segja að landsmenn séu 48% ársins að vinna fyrir hið opinbera eða fram til 26. júní. Þessi mælikvarði er auðvitað ekki fullkominn og allt eins mætti nota hlutfall útgjalda hins opinbera af landsframleiðslunni til að meta umsvifin.

Þetta segir heldur ekki alla söguna því auk þess að taka til sín svo stóran hluta landsframleiðslunnar leggja ríki og sveitarfélög alls kyns höft, boð og bönn á landsmenn. Það er alveg útilokað að meta skaðann sem hið opinbera veldur með því að bregða þessum ósýnilega fæti sínum fyrir menn.

Ef menn vilja setja skattgreiðslurnar í samhengi við önnur útgjöld Meðal-Jónsins má skoða hvernig tekjur Íslendinga skiptast milli ýmissa neysluútgjalda annars vegar og skatta hins vegar og miða neysluna við grunn vísitölu neysluverðs sem sýnir hvernig meðalmaðurinn ver tekjum sínum. Myndin hér að neðan sýnir þessa skiptingu útgjalda heimilanna. Gjöld til hins opinbera eru stærsti útgjaldaliður heimilanna, svo ekki sé meira sagt. Haldi tekjur og gjöld ríkis og sveitarfélaga áfram að aukast, eins og þau hafa gert um langa hríð, er þess stutt að bíða að hið opinbera nái í meirihluta af tekjum landsmanna.