Föstudagur 26. september 2008

270. tbl. 12. árg.

Á dögunum birti Morgunblaðið harða staksteina, þar sem Ögmundur Jónasson var harðlega gagnrýndur fyrir að láta BSRB kosta heimsókn breskrar konu sem kynnt var sem sérfræðingur og varaði hér mjög við því frumvarpi um sjúkratryggingar sem Ögmundur og vinstrigrænir börðust hart gegn á alþingi. Þótti Morgunblaðinu svívirða að nota félag, sem þiggur skyldugreiðslur af félagsmönnum, til að berjast fyrir pólitísku baráttumáli.

Örfáum dögum síðar birtu Samtök iðnaðarins skoðanakönnun sem þau höfðu keypt um nýjustu viðhorf landsmanna, raðað eftir stjórnmálaflokkum, til opinberrar upptöku evru á Íslandi. Eins og margsinnis hefur verið rakið í Vefþjóðviljanum eru Samtök iðnaðarins rekin fyrir nauðungargjöld sem heimt eru af öllum iðnaði í landinu. Fá samtökin hundruð milljóna króna árlega og hika ekki við að nota þau til látlauss áróðurs fyrir afsali fullveldis landsins, niðurlagningu gjaldmiðilsins, inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru.

Má ekki treysta því að Morgunblaðið sýni Samtökum iðnaðarins sömu hörku og Ögmundi Jónassyni?