Fimmtudagur 25. september 2008

269. tbl. 12. árg.

V alið á Sarah Palin sem varaforsetaefni hefur beint athygli manna norður að heimskautsbaug þar sem hún er ríkisstjóri, ekki síst að náttúruverndarsvæðum Alaska (ANWR). Á verndarsvæðunum eru olíulindir sem ýmsir hafa hug á að nýta. Það er hins vegar mikil andstaða við þessa olíuvinnslu meðal náttúruverndarmanna eins og raunar alla nýja nýtingu á gæðum náttúrunnar. Spurningin er: á að bora eða ekki?

Matthew J. Kotchen aðstoðarprófessor við Kaliforníuháskólann í Santa Barbara nálgast svarið með eftirfarandi hætti í grein í The San Diego Union-Tribune nýlega: „Ímyndum okkur að ANWR væri gefið nokkrum umhverfisverndarsamtökum með öllum þeim gæðum sem landinu fylgja. Hvað myndu umhverfisverndarsamtökin gera við landið? Ég tel mig vera umhverfisverndarmann en þessi spurning hefur breytt viðhorfum mínum til ANWR.“

Kotchen bendir á að olíuvinnsla í ANWR myndi aðeins auka heimsframboð olíu um 0,6% og ekki anna nema um 3% af eftirspurninni í Bandaríkjunum. Það sé því ekki víst að vinnslan í Alaska hefði mikil áhrif á olíuverð á heimsmarkaði. Þar með séu veigamestu rök þeirra sem styðja olíuvinnsluna í Alaska vart marktæk en því hefur verið haldið fram að Bandaríkjamenn yrðu ekki eins háðir innfluttri olíu og áður ef vinnsla hæfist í ANWR.

Hins vegar má meta olíuna í ANWR á nær 900 milljarða Bandaríkjadala og fyrir slíka upphæð mætti gera ýmislegt í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Til samanburðar nefndir Kotchen að fjárlög ársins 2008 leggi 7 milljarða dala til loftslagsmála. Kotchen spyr því eðlilega hvort umhverfissamtök myndu hlífa ANWR við olíuvinnslu ef tekjurnar rynnu til rannsókna á loftslagsbreytingum og þróun nýrra orkugjafa.