Helgarsprokið 21. september 2008

265. tbl. 12. árg.
Look at where the money goes. 42 per cent of the budget will go on the Common Agricultural Policy, including a billion euros to subsidise the growing of tobacco in Greece. For all the talk about Europe becoming a hi-tech economy, we are still fire-hosing money at a system of farm support that drives up prices, penalises the poorest consumers, degrades the environment, hinders trade liberalisation and impoverishes the developing world.
-Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, lýsir landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins

L andbúnaðarmál voru mjög í sviðsljósinu í tengslum við Doha-samningaviðræðurnar sem fram fóru í sumar og var því miður slitið snögglega án samkomulags um niðurfellingar á framleiðslutengdum landbúnaðarstyrkjum eins og meðal annars var stefnt að. Evrópusambandið hafði undir lokin boðist til að skera slíka styrki allverulega niður en fullvissaði á sama tíma bændur í aðildarríkjum sínum um að sama hver niðurstaða samningaviðræðnanna yrði þá myndi hún ekki hafa nein áhrif á styrki til þeirra. Aðrir styrkir en framleiðslutengdir yrðu einfaldlega auknir og látnir vega upp hvers kyns niðurskurð á þeim framleiðslutengdu. Niðurstaðan yrði því einfaldlega óbreytt ástand og markmiðum Doha-samningaviðræðnanna um draga úr alþjóðlegum viðskiptahindrunum þar með gefinn fingurinn. Íslensk stjórnvöld tilkynntu síðan hérlendum bændum að sama skapi áður en viðræðunum var slitið að staðið yrði eins að málum hér á landi.

Íslenskur landbúnaður hefur lengi verið nær því að flokkast sem einhvers konar félagsleg aðstoð en nokkurn tímann atvinnugrein með eðlilegum formerkjum. Og ástandið í þeim málum er síður en svo betra innan ESB þó áhugamenn um aðild Íslands að sambandinu fullyrði oft og iðulega að á einhvern furðulegan hátt muni íslenskur landbúnaður færast til annars og betri vegar yrði Ísland gert að áhrifalausu jaðarsvæði í hinu fyrirhugaða stórríki. Svona rétt eins og allt annað. Þó er rétt að hafa það í huga að skilaboðin eru talsvert ólík eftir því við hvern er rætt. Þannig eru frjálslyndir einstaklingar sem vilja sjá landbúnaðinn starfa í sama umhverfi og aðrar atvinnugreinar á eigin fótum fullvissaðir um að aðild að ESB myndi leiða til aukins frjálsræðis í þeim geira. Á sama tíma er þeim sem vilja sjá bændur áfram á framfæri skattgreiðenda tjáð að slík aðild hefði í för með sér aukinn opinberan stuðning við þá sem stunda landbúnað hér á landi.

„Það vill nefnilega stundum gleymast að ESB er tollabandalag en ekki fríverslunarbandalag eins og til að mynda Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA) sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Sviss og Liechtenstein. Aðildarríki EFTA hafa fullt frelsi til þess að semja um fríverslun með landbúnaðarvörur og allar aðrar vörur við öll önnur ríki og markaðssvæði, þá annað hvort ein eða í samfloti, ólíkt aðildarríkjum ESB sem hafa framselt frelsi sitt til þess til stofnana sambandsins og embættismanna þeirra.“

Það er eins með landbúnaðarmál Íslendinga og ýmislegt annað hér á landi að fjölmargt má þar betur fara en það er eins ljóst að fæst af því yrði lagað með innlimun Íslands í ESB. Það hefur gengið hægt að koma á umbótum í íslenskum landbúnaði en enn verr innan ESB ef eitthvað. Þó Bretar séu til að mynda ein stærsta aðildarþjóð ESB hafa þeir ekki náð neinum teljandi árangri við að stuðla að umbótum í frelsisátt á landbúnaðarstefnu sambandsins þrátt fyrir að hafa barist ötullega fyrir því allar götur síðan þeir gerðust þar aðilar árið 1973. Í rúma þrjá áratugi! Einkum eru það nágrannar Breta handan Ermarsundsins, Frakkar, sem hafa staðið í vegi fyrir öllum slíkum tilraunum og skyldi kannski engan undra þar sem stór hluti landbúnaðarstyrkja ESB skilar sér til franskra bænda. Fast að helmingur fjárlaga ESB er varið í sameiginlega landbúnaðarstefnu sambandsins og er um stjarnfræðilegar upphæðir að ræða á ári hverju sem teknar eru úr vösum skattgreiðenda aðildarríkjanna með milligöngu ríkisstjórna þeirra.

Vaxandi alþjóðavæðing hefur leitt til sífellt háværari radda innan ESB um að vernda verði framleiðslu aðildarríkja sambandsins gegn samkeppni við vörur framleiddar utan þess, þá ekki síst landbúnaðarvörur. Svo virðist sem vaxandi stuðningur sé innan ESB við það sjónarmið að bregðast beri við hnattvæðingunni með aukinni einangrun, tollum og ríkisstyrkjum. Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, hefur einkum verið talsmaður þess. Ef Ísland gengi í ESB er líklegt að stór hluti íslenskrar landbúnaðarframleiðslu yrði ekki samkeppnishæfur við hliðstæða framleiðslu í ríkjum sambandsins. Það væri vissulega jákvætt að eðlileg samkeppnislögmál væru látin gilda í þessum efnum en þá má ekki gleyma því að á móti kæmi að komið yrði í veg fyrir alla eðlilega samkeppni við landbúnaðarframleiðslu ríkja utan ESB með verndartollum og styrkjum sambandsins. Það vill nefnilega stundum gleymast að ESB er tollabandalag en ekki fríverslunarbandalag eins og til að mynda Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA) sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Sviss og Liechtenstein. Aðildarríki EFTA hafa fullt frelsi til þess að semja um fríverslun með landbúnaðarvörur og allar aðrar vörur við öll önnur ríki og markaðssvæði, þá annað hvort ein eða í samfloti, ólíkt aðildarríkjum ESB sem hafa framselt frelsi sitt til þess til stofnana sambandsins og embættismanna þeirra.

Ekki er síðan á bætandi að ESB skuli ekki hafa hugmynd um það hvernig nánast öllum þeim háu fjárhæðum sem fara í landbúnaðarmál innan þess er varið eftir að þeim hefur verið úthlutað til aðildarríkjanna. Eins og alræmt er orðið hefur bókhald ESB ekki hlotið samþykki endurskoðenda sambandsins í 13 ár samfellt! Gríðarleg spilling þrífst fyrir vikið innan landbúnaðarkerfis ESB eins og raunar víðar í stjórnkerfi sambandsins enda er allt eftirlit í molum og gegnsæið minna en ekkert. Og ekkert hefur enn verið gert til að koma þessum málum í rétt horf þrátt fyrir að nú séu liðin sex ár síðan bókhaldshneyksli ESB var gert opinbert árið 2002. Eina sem gert hefur verið til þessa er að reyna að sópa málinu undir teppið og láta sem ekkert hafi í skorist. Og enn hefur enginn verið látinn taka pokann sinn vegna þessa hneykslismáls nema yfirmaður endurskoðendasviðs ESB sem vakti athygli á málinu eftir að hafa hvarvetna komið að lokuðum dyrum hjá forystumönnum sambandsins sem höfðu engan áhuga á að gera neitt í því – og hafa ekki enn.

Það er því deginum ljósara að margfalt meiri möguleikar eru á að koma á umbótum á íslenskum landbúnaði í frelsisátt utan ESB þar sem Íslendingar hafa fullt frelsi bæði til þess að semja um fríverslun við hverja sem er og gera hverjar þær breytingar á landbúnaðarmálum sínum sem þeir kjósa án þess að þurfa að spyrja einn eða neinn um leyfi til þess. Innan ESB væri ekki hægt að koma einhverjum slíkum umbótum á nema Frakkar, Pólverjar, Spánverjar og allar hinar aðildarþjóðirnar sem hafa ríkra hagsmuna að gæta þegar landbúnaðarstyrkir sambandsins eru annars vegar væru einnig samþykkar því. Og það er einfaldlega ekki að fara að gerast.