Þ au tíðindi urðu í Bretlandi í síðustu viku að Frjálslyndi flokkurinn, Evrópusinnaðasti stjórnmálaflokkur veraldar, hætti að berjast fyrir upptöku evru á Bretlandseyjum. Hefur þetta vakið mikla athygli þar í landi, sem vonlegt er. Þeir eru til sem vilja að íslenska ríkið ákveði að héðan í frá skuli viðskipti á Íslandi fara fram í þessum gjaldmiðli nokkurra Evrópusambandsríkja og vilja að skipun um það komi frá stjórnvöldum hér á landi og síðan um alla eilífð frá Brussel.
Vefþjóðviljinn hefur aldrei tekið undir slíka ósk, þó blaðið hafi alla sína tíð verið þeirrar skoðunar að útgáfa gjaldmiðils eigi ekki að vera á vegum hins opinbera, hvort sem hann heitir króna, dalur, evra eða szloty. Sú skoðun blaðsins er ótengd því ástandi sem verið hefur undanfarið á alþjóðlegum fjármálamarkaði og var hin sama á þeim árum þegar íslenskt efnahagslíf var ár eftir ár í blóma.
Vefþjóðviljinn hefur einfaldlega sagt að ríkin ættu ekki að gefa út gjaldmiðla heldur ætti fólk að geta ákveðið sín á milli hvernig það ávísar á verðmæti. Að útgáfa peninga sé of mikilvæg þjónusta til að treysta stjórnmálamönnum fyrir henni. Vefþjóðviljinn hefur því aldrei lagt til að íslenska ríkið segi að á Íslandi skuli ekki lengur nota gjaldmiðil A heldur gjaldmiðil B. En til eru auðvitað þeir sem þykir óhjákvæmilegt að hér sé sami gjaldmiðill og í sumum af stærstu Evrópusambandslöndunum og vilja raunar að allt sé fellt að því sem gerist í Brussel.
Fyrir nokkrum árum var líka á þingi maður sem ítrekað barðist fyrir því að klukkan á Íslandi yrði ekki miðuð við sólina heldur klukkuna í sumum Evrópusambandslöndum. Á því gaf hann þá skýringu að þegar hann hringdi til Brussel á morgnana þá væru þar allir í kaffi og hann næði ekki í neinn. Þegar þeir kæmu úr kaffinu, fengju skilaboð og hringdu til baka, þá væri hann í kaffi. Þegar hann kæmi úr kaffinu og reyndi aftur, þá væru þeir farnir í mat. Þegar og ef þeir kæmu úr mat, þá væri hann farinn í mat. Þegar hann kæmi til baka, saddur , þá væru þeir í eftirmiðdagskaffi. Svona gengi þetta alla vikuna og aldrei næðu þeir saman. Því þyrftu allir Íslendingar að breyta hjá sér klukkunni.