Laugardagur 20. september 2008

264. tbl. 12. árg.

Í nýjasta hefti Þjóðmála ritar Atli Harðarson heimspekingur grein um nýja ævisögu John Locke en þær munu ekki koma út á hverjum degi heldur segir Atli að liðin sé hálf öld frá því ævi þessa merka hugsuðar voru gerð jafn vönduð skil. Það er þeim mun merkilegra að Locke var hirðusamur um handrit sín og bréf og fyrir vikið eru miklar heimildir til bæði um hugsun hans og daglegt líf. Atli segir sér til efs að meira sé vitað um líf nokkurs annars manns frá þessum tíma. Ævisöguritarar hafa því af nógu að taka.

Atli hefur raunar sjálfur ritað talsvert um Locke, meðal annars inngang að íslenskri útgáfu Ritgerðar um ríkisvald.  Sú bók fæst auðvitað í Bóksölu Andríkis ásamt áskrift að Þjóðmálum og bókinni Af jarðlegum skilningi eftir Atla sjálfan þar sem Locke er að sjálfsögðu getið.

Atli segir frá því að Locke hafi sem læknanemi kynnst nýjustu kenningum á sviði náttúruvísinda og síðar komst hann í vinfengi við Boyle, Newton og fleiri frumkvöðla í náttúruvísindum, auk þessa að vinna að rannsóknum bæði í efnafræði, veðurfræði og læknisfræði. Og það getur verið afdrifaríkt fyrir heimspekilega þenkjandi menn að skrá sig í læknisfræðina eins og lýsing Atla ber með sér:

Læknisfræðin kom Locke ekki aðeins kynni við helstu vísindamenn aldarinnar. Hún átti líka sinn þátt í því að hann varð nánasti samstarfsmaður Ashleys lávarðar sem var í senn forystumaður þeirra sem mæltu gegn einveldistilburðum konungs og einn áhrifamesti talsmaður verslunarfrelsis á sinni tíð.

Locke var 35 ára gamall þegar leiðir þeirra Ashleys lágu saman. Hann varð heimilislæknir hjá lávarðinum og hjálpaði honum að komast yfir erfiðan sjúkdóm. Með þeim tókst vinátta sem entist meðan báðir lifðu.

Tengslin við Ashley komu Locke í miðja hringiðu enskra stjórnmála. Hann átti meðal annars hlut að ákvörðunum um hagstjórn og málefni nýlenda í Norður Ameríku meðan hann vann fyrir Ashley. Eftir byltinguna 1688 gegndi hann mikilvægu hlutverki við stjórn efnahagsmála og verslunar í umboði Vilhjálms konungs. Frægasta framlag Lockes til stjórnmálanna er þó bók hans Ritgerð um ríkisvald (Second Treatise of Government) þar sem hann ver réttinn til uppreisnar gegn konungi sem reynir að verða einvaldur, færir ýmislegt úr enskri réttarhugsun í nútímalegan búning og setur fram heimspekileg rök fyrir frjálslyndri einstaklingshyggju.

Stjórnmálastefnan sem Locke mælti fyrir varð ekki aðeins sigursæl á Englandi heldur líka í Bandaríkjunum þar sem stofnað var sjálftætt ríki undir lok 18. aldar með stjórnarskrá sem var að miklu leyti byggð á stjórnmálahugsuninni í Ritgerð um ríkisvald. Fleiri þjóðir fylgdu á eftir, til dæmis Norðurlöndin. Þeir sem komu saman á Eiðsvelli árið 1814 og sammæltust um stjórnarskrá fyrir Noreg og þeir sem skrifuðu dönsku Júnístjórnarskrána 1849 höfðu tileinkað sér frjálslyndið sem Locke mælti fyrir. Einveldið sem hafði þótt svo nýtískulegt og skynsamlegt varð hins vegar æ meira úr takti við tímann, enda leiddi það engan veginn til þeirrar farsældar sem að var stefnt.