G amalgróin stofnun eins og Ríkisútvarpið ætti að vera íhaldssöm. Það var þess vegna skemmtilegt að sjá, við breytingar á fréttastofum hennar, að í Efstaleiti gildir enn sú regla að klíka ráðandi starfsmanna ræður öllu, en útvarpsstjóri engu.
Rifjast þá upp aðförin sem fréttamenn gerðu að útvarpsstjóra þegar hann fyrir örfáum árum reyndi að ráða fréttastjóra sem fréttamenn vildu ekki. Gerðu þeir þá uppreisn, felldu jafnvel niður fréttatíma til að vekja ólgu í þágu baráttu sinnar, og höfðu útvarpsstjóra svo algerlega undir að hann skipaði einn úr þeirra hópi fréttastjóra með ólöglegum hætti. Þó fréttamenn hefðu dagana á undan haft óskaplegan áhuga á formreglum við mannaráðningar þá hvarf sá áhugi á andartaki, jafnskjótt og þáverandi útvarpsstjóri réði Óðin Jónsson sem fréttastjóra, án þess að leita umsagnar útvarpsráðs sem þó var lögskylt.
Fréttamenn hafa heldur engan áhuga á því þegar ráðinn er dagskrárstjóri sjónvarps án auglýsingar eða fréttamenn í þátt eins og kastljós, án auglýsingar. En þeir hafa iðulega mikinn áhuga á formreglum utan stofnunarinnar.
Fréttamenn höfðu einnig engan áhuga á því þegar Ríkisútvarpið rembdist eins og það gat við að upplýsa ekki um launakjör yfirmanna og barðist á hæli og hnakka frammi fyrir úrskurðarnefndum. Fréttamenn þess munu hins vegar hafa talsverðan áhuga á upplýsingum um mál, utan stofnunarinnar. Þá eru þeir nefnilega „fulltrúar almennings“.