Þriðjudagur 16. september 2008

260. tbl. 12. árg.

U m þessar mundir bjóða bankar sparifjáreigendum15% vexti á bankareikningum með lítinn eða engan binditíma. Maður sem á 1 milljón króna á þessum kjörum uppsker 150 þúsund krónur í vexti á ári. Þetta þættu sjálfsagt ágæt kjör ef peningar væru ekki að falla í verði í sömu mund. Verðfall peninganna – svonefnd verðbólga – er einmitt um 15% á ári nú um stundir. Þrátt fyrir háa vexti fær sparifjáreigandinn ekki meira fyrir peningana sína þegar hann tekur þá út af reikningnum að ári liðnu. Raunávöxtun hans er núll.

En þar með er hann ekki á sléttu því ríkið leggur 10% fjármagnstekjuskatt á vaxtatekjurnar, alveg óháð því hvort er um að ræða verðbætur eða vexti og alveg óháð verðbólgu. Sparifjáreigandinn þarf því að greiða 15 þúsund krónur í skatt af engum raunvöxtum.

Í stuttu máli sagt: Peningar sem ríkið gefur út falla í verði og ríkið hefur þá sem tapa á því að féþúfu – eða tekjustofni eins og stjórnmálamennirnir kalla skattgreiðendur jafnan.

Vinstri flokkarnir hafa lengi barist fyrir hækkun fjármagnstekjuskattsins með einum eða öðrum hætti. Þeir hafa komið með nýjar tillögur í þeim efnum fyrir hverjar kosningar frá því fjármagnstekjuskatturinn var lagður á. Það er þó vart hægt að hugsa sér mikið hærri skatt en þann sem greiddur er af engu.