Miðvikudagur 17. september 2008

261. tbl. 12. árg.

Þ að reyndist ekki aðeins Sjálfstæðisflokknum dýrkeypt að taka Samfylkinguna með sér í ríkisstjórn. Reikningur ríkisins til skattgreiðenda hækkaði um 20% þegar forysta Sjálfstæðisflokksins kastaði bjarghring til Samfylkingarinnar eftir þingkosningarnar 2007. Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður fullyrðir að Farmsóknarflokkurinn hefði aldrei tekið þátt í slíkri veislu. Á vef sínum í fyrradag segir hún: „Sjálfstæðisflokkurinn er heillum horfinn í núverandi samstarfi og virðist hafa „smitast“ af af góðæriskennderíi Samfylkingarinnar.“

Valgerður bætir svo við um fyrrverandi samstarfsmenn sína í Sjálfstæðisflokknum að „…flokkurinn tók þátt í því að auka ríkisútgjöld um 20% í fjárlagagerð síðasta árs. Ég þori að fullyrða að Framsóknarflokkurinn hefði ekki tekið þátt í þeirri snemmbúnu veislu sem þá var blásið til.“

Það er vafalaust rétt hjá Valgerði að það hefði aldrei orðið skattgreiðendum jafn dýrt að hafa Framsóknarflokkinn áfram við stjórn eins og draga Samfylkinguna um borð. En það er þá heldur ekki ósanngjarnt að spyrja Valgerði hvar hún aðrir Framsóknarmenn vilja spara um í ríkisrekstrinum svo vinda megi ofan af 20% útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar á þessu ári. Framsóknarmenn geta lagt þessar sparnaðartillögur sínar fram hvenær sem er en það gefst sérstakt færi til þess nú í byrjun október þegar fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fyrir þingið.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld var umfjöllun um hugsanleg áhrif hræringa á Wall Street á fjármálalífið hér á landi. Við gerð fréttarinnar hafði stuttlega verið rætt við forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og forstjóra Kauphallarinnar, Þórð Friðjónsson. Einnig var rætt við mann sem talaði eins og fréttaskýrandi eða sérfræðingar um fjármálamarkaði, einkum í markaði í Asíu. Þar var á ferðinni Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og var athyglisvert að hvorki honum né fréttamanninum virtist finnast það nokkuð óeðlilegt að hann væri í viðtali um málið. Ólafur gegnir sem kunnugt er embætti forseta Íslands um þessar mundir en þeir sem til þekkja, til dæmis þeir sem hafa kynnt sér stjórnskipun Íslands, vita að forseti hefur hvorki völd né ber ábyrgð á stjórn efnahagsmála í landinu. Stjórnarskráin greinir skilmerkilega frá því að forseti feli ráðherrum að framkvæma vald sitt og að hann sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Um þetta tvennt er enginn ágreiningur, þótt ýmsir hafi á undanförnum árum viljað túlka einhver önnur ákvæði stjórnarskrárinnar með bæði nýstárlegum og langsóttum hætti. Reyndar felur stjórnarskráin ekki í sér neitt bann við því að forseti tjái sig um hin eða þessi mál á opinberum vettvangi en orð hans um efnahagsmál eða önnur mál stjórnmálalegs eðlis hafa ekki meira vægi í þeim efnum en orð biskupsins yfir Íslandi, skátahöfðingjans, Braga fornbókasala, eða hundruða leigubílstjóra og hárskera í landinu.