Mánudagur 15. september 2008

259. tbl. 12. árg.

F orystumenn sveitarfélaganna eru um þessar mundir tíðir gestir í fréttatímum og krefjast þess að fá að skattleggja íbúana enn meir en þeir þó mega nú. Fylgja þeir jafnan kröfunum eftir með órökstuddu tali um að núverandi „tekjustofnar“ sveitarfélaganna dugi ekki fyrir lögbundnum verkefnum þeirra – og hvað þá þeim nýju verkefnum sem þeir vilja endilega fá að taka að sér.

Aldrei dettur íslenskum fréttamönnum í hug að spyrja þessa höfðingja að neinu sem máli skiptir. Íslensk sveitarfélög standa almennt illa, en það er ekki vegna þess að skatttekjur séu of lágar eða lögbundin verkefni of dýr. Nei, sveitarfélögin eyða og eyða peningum í annað og meira en lögbundin verkefni. Ekki þarf að hafa uppi mörg orð um orkuveitubilunina í Reykjavík, svo aðeins eitt dæmi sé tekið úr höfuðborginni. Það fór milljarður af útsvarspeningum fólks í Ölfushreppi í hlaupabrautir og fleira fyrir unglingalandsmót. Menningarhúsið á Akureyri mun kosta útsvarsgreiðendur þar tvo milljarða. Úti um allt land dæla sveitarfélögin peningum í verkefni sem þeim er engin skylda að sjá um. Hvort sem það er Lína.net, Reykjavíkurakademían, mannréttindastjórinn, risastúka í Laugardal, milljóna framlög til Vals í formi dagsekta eða hvað menn vilja taka úr höfuðborginni – eða þá látlaus sambærileg mál úr öðrum bæjarfélögum, þá er það einfaldlega þannig að íslensk sveitarfélög eyða eyða og eyða peningum.
Og koma síðan í viðtöl hjá gagnrýnislausum fréttamönnum og heimta „nýja tekjustofna“ vegna „lögbundinna verkefna“.

Hvernig væri að einhverjum fréttamanni detti næst í hug að spyrja: „En hvernig er það, þið sem segist ekki hafa efni á lögbundnum verkefnum, hversu miklu fé eyðið þið á hverju ári í önnur verkefni en þau sem þið beinlínis eigið að sinna?“