Föstudagur 22. ágúst 2008

235. tbl. 12. árg.

J æja, þá eru það borgarmálin.

· Varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins styður ekki nýja meirihlutann. Samfylkingin ákveður þegar í stað að þessi varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, fremur en einhverjir langtíma Samfylkingarmenn, skuli sitja í mikilvægum nefndum fyrir flokkinn. Stefnumál Samfylkingarinnar heyrast þá síður í nefndunum, en kannski opnast möguleikar á tengslum sem síðar má nýta við réttar aðstæður. Samfylkingin er flokkur málefna en ekki klækja.

· Framsóknarflokkurinn er nú aftur kominn í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Samdægurs fer í fjölmiðla að í fyrra, rétt fyrir upphaf REI-mála, hafi þáverandi oddvitar flokkanna farið í rándýra veiði, með stjórnarformanni Orkuveitunnar , heilbrigðisráðherra og fjármálastjóra stærsta eiganda Geysi Green Energy; en umræddur stærsti eigandi hafi verið með ána á leigu. Oddviti Samfylkingarinnar krefst rannsóknar. Einhvern veginn lak málið ekki út fyrr en eftir að Framsóknarflokkurinn sagði skilið við minnihlutann.

· Menn eru hættir að ræða laun Jakobs F. Magnússonar. En byrjaðir að ræða laun Gísla Marteins Baldurssonar í staðinn.

· Björk Vilhelmsdóttir sendir frá sér yfirlýsingar í allar áttir. Ein er um að það sé hneyksli að framsóknarmaðurinn sem valinn er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sé ekki „sérfræðingur“, þar sem Orkuveitan sé „fyrirtæki sem er að velta tugum milljarða“. Samfylkingin kaus Sigrúnu Elsu Smáradóttur í stjórn Orkuveitunnar. Er hún sérfræðingur? En Dagur B. Eggertsson? Eða Björk Vilhelmsdóttir, er hún sérfræðingur í að stjórna borgum? Fagmannadýrkunin heldur áfram.

· Þegar Ólafur F. Magnússon borgarstjóri fór á öldurhús saup fólk hveljur. Fyrir örfáum árum voru tíðar klausur í blöðum um það hve Steinunn Valdís Óskarsdóttir væri alþýðlegur borgarstjóri með því að vera tíður gestur á Ölstofunni.

· Ólafur F. Magnússon var borgarstjóri í hálft ár. Umdeildasta verk hans var að skipta um sinn eigin fulltrúa í skipulagsráði. Það kallaði á stríðsglæpayfirheyrslur í sjónvarpsþáttum.

· Nýjum meirihluta er trúandi til að leyfa byggingu risastórs kassa fyrir Listaháskóla Íslands við Laugaveg. Það er auðvitað afar mikilvægt að stórefla skólann. Þá – kannski – eignast Íslendingar, með tímanum, arkitekta sem teikna falleg hús.

· Sú sem mest græðir á borgarstjóraskiptunum er færeyska söngkonan sem hingað er væntanleg á menningarnótt. Ef Ólafur F. Magnússon væri ennþá óvinur fjölmiðlanna myndi enginn eiga nógu stór orð um það hversu ómöguleg söngkona blessuð stúlkan væri. Nú á hún möguleika.

· Engan mann langaði meira en Stefán Jón Hafstein til að verða borgarstjóri. Bráðum verður hann eini maðurinn sem ekki er á launum borgarstjóra.

· Meirihlutaskiptin í gær höfðu þá helstu breytingu í för með sér að Ólafur F. Magnússon lét af starfi borgarstjóra. Ungliðahreyfingar vinstriflokkanna skipulögðu útimótmæli. Það fór aldrei svo að enginn styddi Ólaf áður en yfir lyki.