Fimmtudagur 21. ágúst 2008

234. tbl. 12. árg.

S tjórnvöld í Mexíkó eiga nú í ströngu og blóðugu stríði við vel skipulagða glæpamenn. Glæpaflokkarnir eru vel skipulagðir og vopnum búnir vegna mikils hagnaðar af sölu ólöglegra fíkniefna til Bandaríkjanna. Gróðann nota þeir til að fjármagna aðra glæpastarfsemi og einnig til að spilla stjórnmálamönnum, her, lögreglu og dómurum.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum gerðu mikið átak til að stöðva flóð fíkniefna frá Kólumbíu um eyjarnar í Karabíska hafi á síðari helmingi tíunda áratugarins. Þá tóku Mexíkóar einfaldlega við sem helstu sölumenn fíkniefna til Bandaríkjanna. Mexíkóskir fíkniefnasalar eru nú meðal þeirra stórtækustu í álfunni.

Mary Anastasia O’Grady varpaði ljósi á þetta í vefsjónvarpi The Wall Street Journal nýlega. O’Grady segir að þótt Mexíkó sé ekki sérstaklega spillt land sé stutt síðan lýðræði varð virkt þar í landi og ýmsar stofnanir samfélagsins séu því enn veikburða. Það sé því óraunhæft að ætlast til þess af Bandaríkjamönnum að stjórnvöld í Mexíkó stöðvi hinn arðbæra útflutning til ríka nágrannans í norðri.

Vesturlönd gera þróunarlöndum mikinn grikk með því að hamla frjálsum viðskiptum með hefðbundnar landbúnaðarafurðir. Það heldur mörgum í fátækt. Fíkniefnabannið á Vesturlöndum grefur að auki undan lögum og rétti í þróunarlöndunum.