F yrir skömmu tóku bæjaryfirvöld í Garðabæ þá augljósu afstöðu, að útsvarsgreiðendur þar í bæ skyldu ekki lengur taka nauðugir þátt í því að keyra háskólanema til og frá skóla. Garðabær hætti með öðrum orðum þátttöku í „verkefninu „frítt í strætó““. Við það tækifæri var greint frá því í fréttum, og auðvitað án þess að fréttamenn gerðu nokkra athugasemd eða ræddu frekar, að verkefnið „frítt í strætó“ kostaði sexhundruð milljónir króna á ári. Verkefnið ætti því ekki að nefnast „frítt í strætó“ heldur fremur „ferðist á kostnað annarra.“
Auðvitað vill Vefþjóðviljinn að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fari að dæmi Garðbæinga. Nóg hafði nú verið borgað með strætisvagnasamgöngum áður, en útsvarsgreiðendur mættu alveg sleppa við þennan svimandi kostnað af stríði nokkurra sveitarstjórnarmanna við einkabílinn. Og nú virðist sem fátt mæli gegn því að horfið verði frá þessari stefnu, því í vikunni var í fréttum rætt við framkvæmdastjóra Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem sagði, að eftir að eitt sveitarfélag af sjö væri hætt að bjóða sínum mönnum „frítt“ í strætó, þá væri „verkefnið í rúst“. Fyrst svo er komið er auðvitað rétt að snúa þegar við blaðinu og kasta ekki rúmlega hálfum milljarði á ári í verkefni sem er í rúst.
En sennilega munu sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu ekki haggast, heldur halda áfram að dæla peningum í „ókeypis“ strætisvagnaferðir. Þeir eiga alltaf næga peninga blessaðir; það eru til hundruð milljóna á ári í „frían strætó“, það eru til milljarðar til að byggja íþróttamannvirki, glaðir borga þeir hundruð milljóna til Vals í „dagsektir“ vegna framkvæmda, það er nóg í boði ef einhver félagsskapur vill gera „samstarfssamning“ við sveitarfélagið, það vantar sjaldan peninga ef einhver vill að einhver þjónusta verði „ókeypis“ og svo mætti telja lengi, lengi.
Raunar veit Vefþjóðviljinn hversu lengi má telja. Alveg þangað til að einhver stingur upp á sæmilegri útsvarslækkun. Þá eru engir peningar til. Þá þarf að skoða málið, kannski síðar á kjörtímabilinu. Ef að einhver vill fá að eyða peningum útsvarsgreiðenda þá er nóg til. Ef einhver vill að útsvarsgreiðendur fái eitthvað af peningunum sínum til baka, þá er staðan því miður mjög erfið.
Hversu lengi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík að bjóða upp á hámarksútsvar í borginni? Hvenær fá skattgreiðendur myndarlega útsvarslækkun, og þá er ekki aðeins átt við nokkur prómill?