Þriðjudagur 19. ágúst 2008

232. tbl. 12. árg.

N ýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fær ekki óskabyr í seglin samkvæmt skoðanakönnunum. Er skiljanlegt að almenningur hafi fengið nóg af þeirri lausung, sem ríkt hefur í Ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðna tíu mánuði. Sú lausung hófst með því að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sleit meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn eftir nokkurra daga deilur um málefni Reykjavík Energy Invest.

Margt bendir til að banabiti þess samstarfs hafi verið ótti Björns Inga við að sjálfstæðismenn ætluðu að slíta stjórnarsamstarfi við hann og væru komnir í stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka. Eftir á kom í ljós að þessi ótti átti ekki við rök að styðjast heldur var klækjum og blekkingum beitt til að sannfæra framsóknarmenn um að slíkar viðræður ættu sér stað. Björn Ingi beit á agnið og tók þátt í myndun fjögurra flokka vinstri stjórnar í borgarstjórn Reykjavíkur. Sú stjórn var ekki mynduð á grundvelli málefna heldur ótta og klækjabragða. Fyrst var samið um skiptingu embætta og bitlinga en sagt að litið yrði á málefnin síðar. Málefnaskrá þess meirihluta leit þó aldrei dagsins ljós þótt einstakir borgarfulltrúa hafi ítrekað kallað eftir því að hún yrði samin. Auðvitað var ómögulegt að setja saman trúverðuga stefnuskrá fyrir þá fjóra flokka sem mynduðu 100 daga meirihlutann, eins ósammála og þeir voru í afstöðu sinni til fjölmargra mála, til dæmis flugvallarins, mislægra gatnamóta og Laugavegarins. Jafnvel Dagur B. Eggertsson sá að erfitt yrði að blaðra sig frá þessum vanda.

Í vikunni reyndu Dagur B. Eggertsson og Árni Þór Sigurðsson á ný að grípa til klækjabragða þegar þau buðu Ólafi F. Magnússyni að slíta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hleypa varamanni sínum, Margréti Sverrisdóttur, að sem borgarfulltrúa í því skyni að mynda nýja vinstri stjórn í Reykjavík. Árni Þór, Þorleifur Gunnlaugsson og Sóley Tómasdóttir halda því fram að Ólafur F. hafi þekkst boðið.

Myndun meirihluta sjálfstæðismanna og Ólafs F. Magnússonar var mikið áfall fyrir borgarfulltrúa vinstri manna en ekki síður stóran hóp vinstri sinnaðra álitsgjafa sem vinstri sinnuðum fjölmiðlamönnum finnst einatt ástæða til að kalla til þegar þeir þurfa að ljá málflutningi sínum faglegan blæ. Margir fjölmiðlamenn hafa farið hamförum gegn meirihluta borgarstjórnar síðastliðna sex mánuði og óhætt er að segja að á þeim tíma hafi Ólafur F. mátt sæta meiri árásum í fjölmiðlum og bloggsíðum en flestir aðrir stjórnmálamenn á síðari tímum. Víst hefur Ólafur F. að mörgu leyti verið klaufi í samskiptum sínum við fjölmiðla en það eitt og sér réttlætir ekki þær hörðu árásir sem hann hefur setið undir.

Óvenjumikil harka hefur verið í öllum málflutningi vinstri manna í fjölmiðlum síðast liðna sex mánuði og hefur persóna borgarstjóra oft verið miðdepillinn í árásum þeirra. Slíkt vekur vissulega upp spurningar hvort ætlun vinstri manna hafi beinlínis verið sú að brjóta borgarstjóra niður með markvissum hætti þar til hann yrði ekki lengur fær um að gegna hinu erfiða starfi sínu. En nú virðist ánægjuleg breyting hafa orðið á. Um leið og slitnaði upp úr samstarfi Ólafs F. og sjálfstæðismanna, mátti merkja greinilega stefnubreytingu hjá mörgum fjölmiðlum, sem nú töldu í lagi að fara um hann mjúkum höndum.

Athyglisvert er t.d. að bera saman þau tvö viðtöl sem Kastljós Ríkissjónvarpsins hefur átt við Ólaf F. á undanförnum vikum. Í fyrra viðtalinu – þegar Ólafur F. var enn í samstarfi með sjálfstæðismönnum – var honum hvergi hlíft og þótti mörgum fréttamaðurinn fara yfir strikið. Í síðara viðtalinu, sem fram fór í síðustu viku, var Ólafur F. hins vegar kominn í annað lið og fékk þá silkihanskameðferð.

Ekki þarf að óttast að fjölmiðlamenn dragi úr gagnrýni sinni á nýjan meirihluta. Ýmsir fjölmiðlamenn virðast jafnvel reiðubúnir til að láta nota sig markvisst til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Eitt lítið dæmi um þetta er brunastigamálið svokallaða sem kom upp síðastliðinn fimmtudag, sama dag og slitnaði upp úr meirihlutasamstarfinu. Allan þann dag beið hópur fjölmiðlamanna í Ráðhúsinu eftir því að eitthvað fréttnæmt gerðist og einhverjir þeirra voru gramir yfir því hvað borgarfulltrúar voru sparir á upplýsingar á meðan málin voru á viðkvæmu stigi. Eftir borgarráðsfund um morguninn héldu borgarráðsmenn Sjálfstæðisflokksins fund annars staðar í húsinu. Fjölmiðlamenn töldu hins vegar að borgarfulltrúarnir hefðu yfirgefið húsið og töldu að slíkt hefði ekki verið mögulegt nema að brunastiginn hefði verið notaður. Ekki stórmál í sjálfu sér en afar skopleg frétt og varla vill nokkur stjórnmálamaður að því sé logið upp á hann að hann hafi notað slíka aðferð til að forðast fjölmiðla.

En á fimmtudag var sagt frá því í ýmsum miðlum með mikilli hneykslun að borgarfulltrúarnir hefðu komið sér undan spurningum fréttamanna eftir borgarráðsfundinn með því að fara niður brunastigann. ,,Fjölmiðlar héldu hins vegar að borgarfulltrúarnir hefðu farið niður brunastigann til þess að sneiða hjá sér, olli það hneykslan og fordæmingu og fór reiðialda um samfélagið,” segir í frásögn Morgunblaðsins af málinu. Eftir að slík frétt kom í hádegisfréttatíma RÚV, hafði einn borgarfulltrúanna strax samband til að mótmæla og var orðið við ósk hans um leiðréttingu. Um kvöldið var fréttin endurtekin í sjónvarpsfréttatíma RÚV. Aftur hringdi borgarfulltrúinn til að fá þetta atriði leiðrétt og var það gert. Þrátt fyrir að misskilningurinn hafi þannig ítrekað verið leiðréttur í þeim fréttatímum sem hafa mesta hlustun og áhorf, hafa ýmsir fréttamenn, álitsgjafar og pistlahöfundar kosið að láta misskilninginn lifa. Vefmiðlar fóru þar fremstir í flokki en hið virta dagblað 24 stundir lét sér einnig sæma að bera þessi ósannindi á borð fyrir lesendur sína í föstudagsútgáfu sinni.

Þegar vinstri sinnaðir fjölmiðlamenn og álitsgjafar hafa náð sér eftir það áfall að sjálfstæðismenn séu enn í meirihluta borgarstjórnar, er vonandi að sannmælis verði gætt í umfjöllun um borgarmál. Það skiptir einnig máli að hinn nýi meirihluti takist á við borgarmálin af festu og sýni að það skipti máli hvort það sé hægri eða vinstri meirihluti við völd. Þegar R-listinn náði völdum í Reykjavík 1994 var útsvar í lágmarki, þegar hann lét af völdum árið 2006 hafði það verið hækkað í lögbundið hámark, 13,03%. Er ekki kominn tími til að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beiti sér fyrir skattalækkunum með afgerandi hætti? Væri ekki heilladrjúgt að sjálfstæðismenn og Óskar Bergsson færu þá leið að gefa einstaklingum og fyrirtækjum aukið svigrúm til athafna með því að lækka fasteignagjöld og útsvar svo um munar? Á þeim tímum þegar borgarbúar óttast samdrátt og efnahagslægð er ekki úr vegi að lækka skattana og sýna Reykvíkingum að þeim sé treystandi fyrir eigin fé.