Laugardagur 23. ágúst 2008

236. tbl. 12. árg.

E f að Björn Bjarnason hefði í gær tilkynnt að hann hefði ákveðið að hafna kæru Pauls Ramsess en staðfesta þess í stað þá ákvörðun útlendingastofnunar að vísa honum til Ítalíu – þá hefði annar hver spekingur landsins talað sig hásan um að þessa ákvörðun hefði illmennið Björn verið búinn að taka fyrir löngu en bara beðið með að tilkynna þar til eitthvað annað yrði í fréttum, og gripið tækifærið þegar allir voru að hugsa um handbolta.

En nú tók Björn hins vegar allt aðra ákvörðun og umræddur Keníamaður er nú á leið „heim“ til Íslands, eins og það var orðað í gær, þegar málið loks komst í fréttir á eftir stundarfjórðungi af handbolta og drjúgum skammti af öðrum fréttum. Og þá nefnir enginn tímasetninguna einu orði.

Raunar er þessi tímasetning á ákvörðun Björns alveg dæmigerð fyrir hann. Sennilega hefðu flestir aðrir stjórnmálamenn landsins hugsað með sér, að það væri nú rétt að bíða til hádegis og sjá hvernig leikurinn færi, áður en þeir sendu ákvörðunina frá sér. Ef Íslendingar ynnu leikinn, og ekkert annað kæmist þá að í huga fólks, þá myndu þeir geyma vinsælustu ákvörðun sína á árinu fram yfir helgi svo þeir yrðu nú einu sinni maður dagsins. En Björn hefur einfaldlega tekið ákvörðun þennan dag, og fyrst hún lá fyrir þá var bara að senda hana út. En þetta litla dæmi um vinnubrögð Björns, að bíða ekki fram yfir handboltafréttir með það að tilkynna um Íslandsferð Pauls Ramsess, sýnir líka stjórnmálamann sem oft er fjarri því að njóta sannmælis á öld ímyndarstjórnmálanna.

Í einni af sínum afbragðs bókum um fjölmiðla segir Ólafur Teitur Guðnason að Björn Bjarnason sé sá „úr stjórnarliðinu sem á hvað erfiðast með að fá sanngjarna umfjöllun í fjölmiðlum“, og rekur Ólafur Teitur ótal dæmi máli sínu til stuðnings. það er logið upp á Björn lögbrotum, það eru búnir til um hann palladómar, fréttamenn segja á fundum að þeir treysti sér ekki til að lesa pistla Björns, þegar haldið er fram vanhæfi Björns þá er því slegið upp á forsíðu en þegar Hæstiréttur hafnar slíkum kenningum þá er ekki sagt orð um það, og þannig mætti áfram telja. Og á þessum og öðrum fréttum byggir fólk svo skoðanir sínar á manninum. Í bókum Ólafs Teits eru dæmi eftir dæmi um vinnubrögð fjölmiðlamanna sem allir fréttalesendur ættu að kynna sér. Bækur hans fast í Bóksölu Andríkis.

Og fyrst minnst er á handboltalandsliðið. Er þetta ekki liðið sem enginn vildi þjálfa í vor?