Miðvikudagur 30. júlí 2008

212. tbl. 12. árg.
Um þetta leyti fékk ég mér ljóðabókina L’Homme approximatif eftir Tristan Tzara. Lauslega áætlaði maðurinn. Gekk með hana í jakkavasanum í nokkrar vikur. Hún reyndist sérkennilega heillandi. Hentaði mér auk þess afar vel. Ég var einhvern veginn mjög lauslega áætlaður.
– Sigurður Pálsson, Minnisbók, bls. 134.

E in notalegasta bók síðasta árs var Minnisbók Sigurðar Pálssonar skálds frá Skinnastað í Öxarfjarðarhreppi. Í henni segir hann frá Parísarárum sínum, en hann var þar um árabil við nám og mannfélagsrannsóknir. Kom þar haustið 1967 og úr miklu návígi fylgdist hann forvitinn með róstunum sem urðu í borginni vorið eftir, en „vorið 1968 í París“ hefur orðið að mikilli goðsögn. Og sumt sem menn halda um þá daga kemur sjónarvottinum Sigurði spánskt fyrir sjónir:

Mér hefur alla tíð fundist stórmerkilegt hvað allir mögulegir menn, sem ekki voru á staðnum, hafa verið duglegir í gegnum tíðina að segja mér, oft með miklum gusti, hvað gerðist í raun og veru þessa maídaga. Segja mér alls konar hluti sem eru óralangt frá því sem raunverulega lá í loftinu, því sem var hinn innlifaði veruleiki. Allir hafa þeir sagt mér, leynt eða ljóst, hvað mér eigi að finnast um þetta, um hitt.

Og við mannlífsrannsóknir sínar rak Sigurð á ýmsar fjörur; hann segist aldrei hafa látið sér til hugar koma að ganga í nokkra af þeim hreyfingum sem hann kynntist, heldur verið þarna sem „forvitinn áhorfandi“.

Svo voru nýjar hreyfingar stöðugt að koma fram á sjónarsviðið, óháðar gömlu Marx-Lenín-Maó hreyfingunum og má þar nefna til dæmis nýju kvennahreyfinguna, umhverfisverndarsinna og byltingarhreyfingu homma, FHAR, Front homosexuel d’action révolutionnaire.
Stundum kom mér á óvart hvað bræðralag og jafnrétti voru fjarri, hvað dogmablindan var dýrkuð, verstu eiginleikar „stéttaróvinanna“ áberandi hjá sumum félögunum, eins og þeir hefðu orðið fyrir dáleiðslu, tekið upp alla galla andstæðinganna. Umburðarlyndi? Ég held nú síður. Þrátt fyrir alla jákvæðnisorðræðuna um algjörlega nýja tíma var eins og gamalkunnir „borgaralegir“ eiginleikar eins og öfund og afbrýðisemi tækju gjarnan völdin. Alls konar áreiti og skipanir dundu á manni, ef maður lenti í því að þýðast ekki einhvern smákóng mátti búast við því að vera kallaður hétero-flic eða gagnkynslögga en þetta skammaryrði var notað um þá sem héngu á gagnkynhneigð sinni eins og hundar á roði.

 Það er í París sem Sigurður Pálsson skáld verður til og tekur við af þeim sem réttilega hafði kynnt sig sem Sigurð Pálsson prestson.

Það hafði sljákkað eitthvað í þessum góðu konum þegar ég sýndi þeim passann minn en ég heyrði samt að þær voru áfram að tala um mig og þar náði ég orðinu parents eða foreldrar. Þá þótti mér ástæða til að geta þess að faðir minn væri prestur, þótti það vel til þess fallið að róa þær niður.
Það hefði ég ekki átt að gera.
Nú er það svo, að í katólsku landi er það í sjálfu sér svolítið sérkennilegra að vera prestsonur en hér um slóðir. Svo tekur nú ekki betra við þegar viðkomandi lítur út fyrir að vera nýfermdur og er auk þess staddur á Hringekjunni, alþekktum nektardansstað.
Það braust út þvílíkur generalhlátur meðal þessara fögru kvenna að ég heyri hann ennþá. Þær veltust um, föðmuðu mig af hamslausri gleði og görguðu: Fils de pasteur! Prestsonur! Hann er prestsonur! Og áfram var hlegið og nú var byrjuð sýning á litlu sviði innst í salnum, dæmigerður yndislegur, gamaldags franskur stripptís.
Kátínan var slík og gleðin yfir prestsyninum sem rekið hafði á fjörur þeirra að þegar ég afneitaði öðrum bjór, þetta verð ætlaði ég ekki að borga aftur, þá fékk ég annan í boði hússins. Slík var stemningin. Og að því búnu var fils de pasteur skilað út á götu aftur með glaðværum upphrópunum.

Skáldefnið Sigurður gerði víðreistara en inn á snotra nektardansstaði að rekja ættir sínar. Hann var tíður gestur í leik- og kvikmyndahúsum enda kominn til Frakklands til að læra leikhúsfræði.

Leikhúsið á Maison Inter var ánægjulegur miðpunktur lífsins á Cité en þar átti ég eftir að búa næstu þrjá vetur.
En það voru margir fleiri salir á Maison Inter en stóri leikhússalurinn.
Man vel eftir Jean-Luc Godard að sýna myndir sínar frá „ósýnilega tímabilinu“ – myndir sem fáir sáu, Austanvindurinn, Barátta á Ítalíu, Pravda, Vladimír og Rósa, myndir sem Dziga Vertov-grúppan var skrifuð fyrir.
Ekki voru þetta beinlínis „venjulegar“ pólitískar baráttumyndir, viðfangsefnin aðallega kvikmyndafræðileg en með sterku pólitísku ívafi.
Ég man glöggt hvað pólitískir baráttumenn áttu bágt með að þola þessar myndir Godards, þeir vildu að hann væri skýrari pólitíkus. Oftar en ekki lá við að gremjan syði upp úr, lá við að hann yrði fyrir líkamlegu ofbeldi. Þessar sýningar Dziga Vertov-grúppunnar enduðu með því að flestallir æptu svívirðingar gegn einum manni, Jean-Luc Godard, sem stóð á sviðinu.
Ég man alltaf hvað ég dáðist að honum, aleinum eftir sýningu standandi framan við tjaldið, nánast einn gegn öllum sem tóku til máls með miklum látum (ég stóð með honum en hélt kjafti eins og hinir aumingjarnir enda bauð frönskukunnáttan ekki upp á annað), stóð og fékk á sig ofsafengnar árásir dólgamarxista, dólgalenínista, óðra vinstrivillinga, stóð þarna einn, örlítið smámæltur með svissneskan hreim og lituð gler í þykkum gleraugum og varðist með af feiknarlegri kvikmyndafræðilegri hörku. Hamraði á staðreyndum, barði í kvikmyndatjaldið: Þetta er ekki raunveruleikinn, hér á tjaldinu, þetta er kvikmynd, mynd og hljóð saman, getiði ekki skilið það!

Minnisbók Sigurðar Pálssonar er ákaflega geðfelld og skemmtileg lesning. Hann skoðar Parísarborg og mannlífið þar af glöggu augu gestsins og lýsingar hans eru af skarpskyggni en þó notalegar. Hann talar ekki illa um nokkurn nafngreindan mann og lesandanum líður vel bókina á enda. Hvort sem frásögnin berst að götuvígjum maíóeirðannda 1968 eða að kattarhaldi þeirra Kristínar konu hans, þá er allt í sama indæla stílnum sem skemmtir rólega en þreytir aldrei. Af bókinni að dæma er Sigurður hinn ljúfasti maður, og virðist raunar sem það sé aðeins fyrir alhörðustu menn að vera í nöp við hann.
Ef það er eitthvað sem Sigurður gagnrýnir í bókinni þá er það hóphyggja og altækar lausnir. Og þó það sé „vinstrið“ sem verst verði fyrir barðinu á kurteislegri ádeilu hans, þá væri ekki sanngjarnt af Vefþjóðviljanum að taka ekki eftir að á einum stað segist Sigurður hafa skynjað lausnarhyggju, sem hann kallar, hjá „extremistadeild frjálshyggjunnar til dæmis“. En

ógeðið á lausnarhyggjufólki náði hámarki á Kópavogshálsinum. Líklega hefur þetta verið sumarið 1981.
Ég var nýkominn frá því að mótmæla innrás Sovétmanna í Afganistan í fjölmennri göngu í París.
Í þeirri göngu rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á útvarpsfréttir heima á Skinnastað, átta ára gamall, og verið var að segja frá síðustu útsendingu frjálsræðishreyfingarinnar í Ungverjalandi. Meðan sovéskar hersveitir umkringdu útvarpshúsið héldu útvarpssendingar áfram.
Ræða Imre Nagy forsætisráðherra um hjálparbeiðni til hins frjálsa heims var flutt, loks endurtók hann með sívaxandi angist: „Hjálpið okkur, hjálpið okkur” og svo kom þögn í útvarpssendinguna.
Við sátum inni í stofu fjölskyldan við kvöldverðarborðið og skyndilega heyrðist frá móður minni niðurbælt óp, hún stóð upp í skyndingu og hljóp fram í eldhús. Ég fór í humátt á eftir henni. Þá stóð hún við eldhúsbekkinn og grét með óviðráðanlegum ekka, ég hafði aldrei orðið vitni að slíku tilfinningauppnámi hjá henni. Þegar hún varð mín vör reyndi hún að stilla sig, trúlega til þess að valda mér ekki kvíða. Hún var jafnlynd og viðkvæm með einstaklega ríka réttlætiskennd. Vitanlega var hún sjálfstæðismaður alla tíð enda þau Jón stofnandi flokksins bræðrabörn.
Þetta atvik rifjaðist upp, ég hafði grafið það djúpt niður.
En ég var sem sagt staddur á Kópavogshálsinum, nýkominn frá París og hafði verið beðinn að lesa ljóð fyrir einhverja míníútgáfu af Keflavíkurgöngu, minnir mig. Ég kom í kjölfar ræðumanns sem talaði eins og ekkert hefði gerst, ekkert hefði breyst alveg frá 1949. Hin hrollvekjandi séríslenska útgáfa af svart-hvítum hugsunarhætti. Og ég var enn með skýrar myndir og minningar í huganum frá mótmælunum gegn innrás Sovétmanna.
Ég las eitthvað upp, ein tvö ljóð eða svo, fundarstjóri þakkaði mér, áfram héldu ræður.
Mér var svo gjörsamlega öllum lokið að ég hvarflaði aðeins frá fundinum þarna í melnum á Kópavogshálsi, dúndrandi mígreniverkur kominn í gagnaugun, ég kom mér fyrir í hvarfi bak við stóran stein og yfir mig kom þvílíkt vonleysi og höfnun á þessum dapurleika öllum saman að ég ældi. Lá lengi og horfði upp í skýjafarið, heyrði að fundi var lokið, gangan hélt áfram.