Fimmtudagur 31. júlí 2008

213. tbl. 12. árg.

H

Bann við akstri ákveðna daga hefur ekki skilað neinum árangri í baráttu við loftmengun í Mexíkóborg.

oy no circula, bíllinn þinn er ekki í umferð í dag, er nafn á kerfi sem yfirvöld í Mexíkóborg settu upp árið 1989. Með því var bíleigendum bannað að aka bíl sínum einn dag í viku og fer það eftir síðasta tölustaf bílnúmers hvaða dag menn mega ekki aka heimilisbílnum. Kerfinu var ætlað að draga úr loftmengun frá útblæstri bíla en öfugt við Reykjavík er útblástur bíla helsta ástæða loftmengunar í Mexíkóborg. Brot gegn banninu varða háum sektum og því er framfylgt af festu.

Í nýjasta tölublaði PERC Reports segir Daneil K. Benjamin frá nýrri rannsókn sem sýnir að þrátt fyrir bann við akstri einn dag í viku hafi hvorki tekist að minnka styrk kolmónoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs, ósons né brennisteinsdíoxíðs í Mexíkóborg. Ekki dró heldur úr notkun eldsneytis í borginni og notkun almenningsvagna jókst ekki heldur.

Það tókst með öðrum orðum ekki að draga úr mengun þrátt fyrir að 20% bílaflotans hafi verið settur í bann á hverjum degi. Og hvers vegna tókst það ekki? Jú, borgarbúar keyptu einfaldlega fleiri bíla til að bæta sér upp bíllausa daginn. Þeir gættu þess auðvitað að númer hans endaði ekki á sama staf og bíllinn sem þeir áttu fyrir. Í mörgum tilfellum keyptu menn gamlan skrjóð til að skrölta á þennan eina dag sem ekki mátti nota bílinn sem fyrir var á heimilinu. Gamlir bílar menga undantekningarlítið mun meira en nýir, bæði vegna slits og þess að í þá vantar nýjasta mengunarvarnabúnað.

Bannið hafði mikinn kostnað í för með sér fyrir borgarbúa en skilaði engum árangri í baráttunni við loftmengun.

Benjamin segir að þessi leið sé því ekki vænleg til árangurs þótt hún kunni að hljóma vel í fyrstu, hún dragi úr velmegun en ekki úr loftmengun. Þær tíu borgir í heiminum sem kljást við mest svifryk eru allar í þróunarlöndunum. Þróunarlöndin þurfi síst á svona ráðum að halda.