Þriðjudagur 29. júlí 2008

211. tbl. 12. árg.

K jarnorkuver sjá Bandaríkjamönnum fyrir fimmtungi raforku þar í landi. Þau eru rúmlega hundrað talsins í landinu en engar nýjar áætlanir um byggingu nýrra vera hafa verið lagðar fram frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Síðustu verkefni á þessu sviði voru tafin um 10 til 15 ár af yfirvöldum. Seabrook verið í New Hampshire var tafið í 14 ár þar til það fór loks að framleiða rafmagn árið 1990. Shoreham verið var 16 ár í byggingu en vegna tafa og mótmæla náði það aldrei að framleiða orku, var loks lokað árið 1989 og félagið sem stóð að byggingunni varð gjaldþrota.

Á næstunni er væntanleg bókin Terrestrial Energy: How Nuclear Power Can Lead the Green Revolution and End America’s Long Energy Odyssey eftir William Tucker. Tucker ritaði grein í The Wall Street Journal 21. júlí síðastliðinn þar sem hann segir að vilji menn hleypa lífi kjarnorkuiðnaðinn verði að rýmka þær reglur sem fækka þeim hindrunum sem ný kjarnorkuver hafi mætt undanfarna áratugi. Tucker heldur því fram að kjarnorka sé vænlegasta leiðin til að koma í veg fyrir orkuskort og til að losa menn við áhyggjur af gróðurhúsaáhrifum frá bruna jarðefnaeldsneytis.

Umhverfisverndarsinnar hafa alltaf haft horn í síðu kjarnorkunnar og það er engin tilviljun að bygging nýrra kjarnorkuvera stöðvaðist á áttunda áratugnum þegar umhverfisverndarsamtök fóru að hafa mikil áhrif. En nú standa umhverfissinnar kannski frammi fyrir því vali að notkun olíu og kola aukist áfram eða liðkað verði fyrir kjarnorku.