Mánudagur 28. júlí 2008

210. tbl. 12. árg.
The European Union is a state under construction.
-Elmar Brok, formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins.
The era of small nation states has passed.
– Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, í ræðu 16. janúar 2007.

E itt af því sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar rætt er um Evrópusambandið er að það er fyrirbæri í stöðugri þróun. Svo virðist sem þetta sé sjaldan haft í huga. Það er ekki eins og ýmsir virðast halda að hægt sé að velja einhvern tímapunkt til að ganga þar inn og gera síðan ráð fyrir að ekkert breytist eftir það. Það er ekki nóg að horfa einungis til þess hvernig ESB er í dag heldur verður að taka inn í myndina hvernig líklegt sé að þróunin þar á bæ verði á næstu árum og áratugum. Besta leiðin til að gera sér það í hugarlund er að líta til þess hvernig ESB hefur þróast til þessa.

Ef segja má að eitthvað hafi einkennt þróun ESB og forvera þess fram til þessa dags er það síaukinn félagslegur, efnahagslegur og pólitískur samruni sem lýst hefur sér í því að stöðugt meira fullveldi hefur verið fært frá aðildarríkjunum og til stofnana þess með tilheyrandi sívaxandi miðstýringu á öllum sviðum. Fátt bendir til annars en að þessi þróun muni halda áfram og stórt stökk verður tekið í þá átt með stjórnarskrá ESB, Lissabon-sáttmálanum, nái hún fram að ganga.

ESB er í dag komið langan veg frá því að geta flokkast sem alþjóðstofnun eða milliríkjasamstarf með hefðbundnum hætti og þeim mun nær því að vera eitt ríki. Þar vantar orðið mjög lítið upp á og verði stjórnarskrá ESB endanlega lögfest hafa ýmsir bent á að þar með verði ESB komið með öll einkenni ríkis samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þar á. Fyrir utan stjórnarskrá má nefna ríkisstjórn (framkvæmdastjórnina), þing, löggjafarvald, saksóknara, hæstarétt, gjaldmiðil, ytri landamæri, utanríkisstefnu, utanríkisráðherra, utanríkisþjónustu, forseta og fána svo eitthvað sé nefnt.

Stjórnarskrá ESB er að vísu í uppnámi um þessar mundir eftir að írskir kjósendur höfnuðu henni pent í þjóðaratkvæði í júní en þegar er ljóst að sú niðurstaða verður ekki tekin gild fyrst hún er ekki ráðamönnum í Brussel að skapi. Líklegt er talið að Írum verði gert að kjósa aftur um stjórnarskrána á fyrri hluta næsta árs og fái þá tækifæri til að kjósa rétt eftir að hafa kosið rangt í fyrra skiptið. Í aðdraganda þjóðaratkvæðisins var Írum ítrekað hótað öllu illu af ráðamönnum ESB ef þeir höfnuðu stjórnarskránni og ekki hafa hótanirnar minnkað eftir að sú niðurstaða lá fyrir.

Hópþrýstingur og hótanir um einangrun og hvaðeina er einmitt helsta verkfæri ráðamanna ESB til að ná sínu fram gagnvart einstökum aðildarríkjum. Og þannig hefur Evrópusamruninn svokallaður að miklu leyti verið keyrður áfram til þessa. Óþægum aðildarþjóðum er einfaldlega stillt upp við vegg þar til þær gefa eftir og þá ekki síst með því að láta þær kjósa aftur og aftur og aftur þar til þær gefast upp á andstöðunni og samþykkja eitthvert það samrunaskref sem verið er að keyra í gegn. Og síðan er aldrei kosið um málið aftur.

Stjórnarskrá ESB mun þó leysa þetta vandamál að mestu þar sem neitunarvald einstakra aðildarþjóða verður ekki aðeins afnumið á tugum sviða heldur verður hægt að breyta henni án þess að bera þurfi það undir aðildarríkin.