K ostir og gallar Evrópusambandsaðildar hafa verið til umræðu á Íslandi í áratugi. Mörgum ef ekki flestum steinum hefur verið velt við í þeirri viðleitni að velta upp kostum og göllum hugsanlegrar aðildar landsins. Flestir hafa verið sammála um að gallarnir eru fleiri en kostirnir, og það alvarlegir að aðild sé ekki fýsilegur kostur. Talsmenn aðildar hafa þó jafnan verið hávær hópur, og hafa síst orðið lágværari á undanförnum árum. Margir þeirra hafa látið sem þeir séu sjálfstæðir fræðimenn og klætt rök sín fyrir ESB-aðild landsins sem fræðilega niðurstöðu þar sem útgangspunkturinn hafi verið að gera óháða skoðun á hugsanlegri aðild. Sumir áköfustu talsmanna aðildar „gleyma“ þó jafnan að láta þess getið, að þeir hafi verið talsmenn ESB á Íslandi, verið í stjórn Evrópusamtaka, í stjórnum eða jafnvel verið varaþingmenn eina íslenska stjórnmálaflokksins sem hefur ESB-aðild á stefnuskrá sinni. Sem betur fer eru ekki allir talsmenn aðildar seldir undir þessa sök. En allt of margir ESB-sinnar taka upp hætti ESB-elítunnar í Evrópu sem lætur eins og hlutir séu ekki fullræddir fyrr en niðurstaða fæst sem er þeim þóknanleg. Þannig hafa þau fáu lönd, sem náðarsamlega hafa fengið að kjósa um ESB-samninga sem valda grundvallarbreytingum á sambandinu, verið látin kjósa að nýju um sömu eða lítið breytta samninga þangað til þeir hafa verið samþykktir, eins og Vefþjóðviljinn hefur meðal annars fjallað um hér.
„Menn hafa rætt þetta mál í þaula í fjölda ára. ESB hefur haldið úti vef á íslensku, verið með íslenska upplýsingafulltrúa, starfrækt hafa verið félagssamtök með og á móti ESB-aðild, málið hefur verið til umræðu í öllum stjórnmálaflokkum landsins, ritaðar hafa verið um málið bækur og ótal blaðagreinar, gefnar hafa verið út skýrslur, settar á stofn Evrópunefndir og svo mætti lengi telja. Það er svo auðvitað allt annað mál, að það hefur ekki verið almenn niðurstaða að vert sé að sækja um aðild. Það jaðrar við að vera óheiðarlegur málflutningur að láta sem málið hafi ekki verið rætt …“ |
Oft hefur ESB-elítan, bæði í viðkomandi landi og í Brussel, haldið úti linnulausum hræðsluáróðri til að tryggja að niðurstaðan verði sem vera ber. Sama ferlið er farið af stað nú eftir að Írar höfnuðu stjórnarskránni, nei fyrirgefið Lissabon-sáttmálanum, því ekki má hann heita stjórnarskrá lengur eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu honum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2005. Þá gætu stjórnvöld í Frakklandi og Hollandi ásamt Brussel-veldinu verið sökuð um ólýðræðisleg vinnubrögð fyrir að senda lítið breytt stjórnarskrárdrögin til samþykktar að nýju í aðildarlöndunum, en flest löndin láta sér nægja að láta þjóðþingin samþykkja hana. Það gera þau til að tryggja að þjóðirnar fari ekki að asnast til að hafna henni að nýju. Danir sem annars hafa verið duglegastir við að senda grundvallarbreytingar á samstarfinu til þjóðaratkvæðagreiðslu þorðu það ekki núna. Enda stefnir Anders Fogh Rasmussen að toppstöðu í alþjóðasamstarfi, annað hvort í NATO eða í ESB, ef marka má danska fjölmiðla. Ekki vildi hann bera ábyrgð á því að Danir höfnuðu samningnum í þjóðatkvæðagreiðslu, enda mundi það gera drauma hans um toppstöðuna að engu.
En að íslenskum talsmönnum ESB-aðildar og hvernig þeir beita þessari aðferðafræði. Þeir halda því statt og stöðugt fram að nú þurfi að fara að ræða kosti og galla ESB-aðildar eins og það hafi ekki verið gert. Útgangspunktur þeirra er auðvitað einfaldur. Kostir og gallar ESB-aðildar hafa ekki verið ræddir til þrautar fyrr en landið er komið í Evrópusambandið. En þetta er auðvitað eins og hver önnur vitleysa. Menn hafa rætt þetta mál í þaula í fjölda ára. ESB hefur haldið úti vef á íslensku, verið með íslenska upplýsingafulltrúa, starfrækt hafa verið félagssamtök með og á móti ESB-aðild, málið hefur verið til umræðu í öllum stjórnmálaflokkum landsins, ritaðar hafa verið um málið bækur og ótal blaðagreinar, gefnar hafa verið út skýrslur, settar á stofn Evrópunefndir og svo mætti lengi telja. Það er svo auðvitað allt annað mál, að það hefur ekki verið almenn niðurstaða að vert sé að sækja um aðild. Það jaðrar við að vera óheiðarlegur málflutningur að láta sem málið hafi ekki verið rætt svo ekki sé talað um þá ótrúlegu staðhæfingu sumra að einhverjir hafi lagt bann við að tekin sé pólitísk umræða um málið, eins og slíkt væri nú hægt.
Um þessar mundir sverfur að í efnahagsmálum þjóðarinnar. Á sjónarsviðið mæta galvaskir ýmsir gamalkunnir talsmenn aðildar. Að þeirra mati var nú oft þörf á aðild, en nú er alger nauðsyn. Af hverju?. Jú, landið á ekki viðreisnar von nema ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Þá skiptir engu máli þó ljóst sé, að landið uppfyllir ekki um þessar mundir ströng skilyrði sem nauðsynleg eru til að hægt sé að ganga í myntbandalag Evrópu og taka upp evru. Og það gildir talsmennina einu, þó að flestir sérfræðingar séu um það sammála, að ekki sé heldur vænlegt fyrir landið að taka upp annan gjaldmiðil við núverandi aðstæður. Nei, öll vopn eru leyfileg, og nú skal nota efnahagsþrengingarnar og þá óvissu sem þeim fylgja til að afla aðildarhugmyndum stuðning, þó ljóst sé að lausn á að steðjandi vanda er ekki að leita í skyndiupptöku evrunnar.
Þar fyrir utan er ljóst að evran væri allt of dýru verði keypt ef gengið yrði í sambandið til þess eins að taka hana upp. Fyrir nú utan það að Brusselvaldið, sem lítil sem engin lýðræðisleg stjórn og aðhald er á, eins og Vefþjóðviljinn hefur margoft rakið, hefur yfir sífellt fleiri sviðum mannlegs samfélags að segja og þar með daglegu lífi borgara sambandsins. Sambandið þenst út og færist æ nær því að vera ríki. Verði stjórnarskránni, æ fyrirgefið Lissabon-samningnum, troðið í gegn, sem nánast er gefið að gert verði í einni eða annarri mynd þrátt fyrir að honum hafi verið hafnað að leikreglum sambandsins, þá fær sambandið til dæmis eigin forsætis- og utanríkisráðherra. En þar sem áróðursmeistararnir gera sér grein fyrir því að lítill vilji er meðal borgara sambandsins til þess að ganga sambandsríki á hönd, þá er gert sem minnst úr þessum þætti. Menn gera með öðrum orðum sem minnst úr fullveldisafsali aðildarríkjanna og þeim þáttum sambandsins sem oftast heyra undir ríki en gera þeim mun meira úr þeim þáttum sem minna á hefðbundið alþjóðastarf. En samhliða því sem valdaafsal aðildarríkjanna til Brussel verður meira, þeim mun fjarlægara verður hið eiginlega ríkisvald borgurum sambandsins. Meðal annars vegna fjarlægðarinnar en jafnframt vegna flókinnar uppbyggingar stofnana og ákvarðanaferla sambandsins sem gerir það ógegnsætt og illskiljanlegt flestum borgurum sambandsins og ólíkt því sem þeir eiga að venjast. Það hefur líka sannast í ESB-veldinu, að þar sem geigvænleg völd safnast aukast líkurnar á spillingu og misnotkun valds. Lýðræðislegum stjórnarháttum er verulega ábótavant og hefur Vefþjóðviljinn fjallað um það stöku sinnum eins og til dæmis hér og hér. Það sem verra er fyrir örríki eins og Ísland, að smáríki eru nánast valdalaus eins og meðal annars var bent á hér. Vert er líka að benda á að enginn veit hvernig ESB breytist á næstu árum. Danir gengu til dæmis til allt annars samstarfs árið 1973 en þeir standa frammi fyrir í dag og hið sama á við um Svíþjóð og Finnland sem gengu í sambandið 1995. Sambandið hefur gjörbreyst síðan þá.
Það er auk þess ekki sannleikanum samkvæmt þegar menn halda því fram að ganga þurfi til aðildarviðræðna til að sjá hvers kyns samning Íslandi byðist. Það er nokkurn veginn þekkt hvernig aðildarsamningur landsins yrði við ESB. Það eina sem ekki er þekkt, er hvernig skammtíma aðlögunarundanþágurnar yrðu. En það er til dæmis ljóst að landið yrði hluti af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins og það eitt útilokar aðild landsins.
Þessi upptalning sýnir, að óviðunandi ókostir fylgja ESB-aðild fyrir háþróað lýðræðisríki eins og Ísland sem býr við mjög gagnsætt kerfi og þar sem spilling er með því sem minnst gerist. Gallar ESB eru slíkir að ekkert vit væri í því fyrir Ísland að ganga í sambandið til þess eins að geta tekið upp evruna. Aðild væri allt of dýru verði keypt. Málið hefur verið rætt í þaula, óteljandi steinum velt við í leit að kostum og göllum og niðurstaðan enn verið sú, að gallarnir séu svo margir og að þeirri stærðargráðu að aðild komi ekki til greina og að þeim fari heldur fjölgandi. Sérstaklega í ljósi þess að Ísland er auðvitað þátttakandi í ESB-samstarfi, þar sem segja má að landið fleyti rjómanum af og hafi átt kost á að velja þær stoðir samstarfsins sem ákjósanlegastar eru, eins og innri markaðinn. Það er því mikilvægt að láta ekki tímabundnar efnahagslegar þrengingar blinda okkur sýn. Það er út í bláinn að ætla að taka ákvörðun um það að vaða í ESB um leið og niðursveifla er í efnahag landsins.
Það er ekki endilega það besta fyrir stöðugleika og trúverðugleika krónunnar að vera með endalausar vangaveltur um að kasta krónunni. En vilji menn endilega skoða kosti þess og galla að kasta krónunni og taka upp erlenda gjaldmiðla vill Vefþjóðviljinn því benda á, að það finnast fleiri kostir en innganga í Evrópusambandið til þess að taka upp evruna. Ein hugmynd sem nefnd hefur verið en lítið skoðuð, ólíkt aðild að ESB, er Bandaríkjadalur. Eins hefur Björn Bjarnason nýlega velt fyrir sér möguleikanum á því að bæta þriðju stoðinni við samstarf Íslands við ESB, þannig að landið tæki þátt í samstarfi um evruna auk EES-samningsins og Schengen-samkomulagsins. Ekki er hér verið að lýsa yfir sérstökum stuðningi við upptöku dals eða þessa hugmynd Björns. Hugmyndirnar eru nefndar til sögunnar til að benda á að margar athyglisverðar tillögur hafa verið settar fram um framtíðarskipan íslenskra gjaldeyrismála sem nánast ekkert hafa verið ræddar ólíkt aðildarhugmyndinni. Það getur vel verið að ESB-sinninn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi rétt fyrir sér um að hugmynd Björns yrði þyrnum stráð og ólíklegt sé að hún sé framkvæmanleg. En um það vita menn í raun ekkert því hún hefur ekki verið skoðuð neitt af viti. Það er því ábending Vefþjóðviljans til þeirra sem vilja skoða aðra kosti en krónuna að beina orku sinni í að grannskoða fremur leiðir sem lítið hafa verið rannsakaðar fremur en að velta fyrir sér ESB-aðild til þess eins að taka upp evruna. Sú leið hefur verið skoðuð ofan í kjölinn og er ekki álitleg.