Laugardagur 26. júlí 2008

208. tbl. 12. árg.

Þ að var athyglivert að heyra tvo stjórnarandstöðuþingmenn vaða á súðum í morgunþætti Bylgjunnar í vikunni. Var þeim báðum heitt í hamsi, en öðrum þó sýnu meira. Taldi sá að skattalækkanir á almenning og fyrirtæki hefðu verið fráleitar, enda væru sjóðir nú tómir þegar harðnaði á dalnum.

Fyrri stjórnarandstöðuþingmaðurinn vildi þá að vísu eitthvað fara að malda í móinn. Benti á að að vísu hefði jú skuldir ríkissjóðs verið greiddar upp, sem skildi þjóðarbúið eftir í betri stöðu en ríkisfjárhagur margra annarra þjóða væri nú.

Við þetta óx hins vegar ásmegin félaga hins síðarnefnda, sem sagði hér allt ekki einungis á leiðinni til fjandans heldur yrði ekkert til að bjarga okkur af þeirri vegferð – nema við gengjum í Evrópusambandið! Við það væri málið leyst. Vandamálin gufuð upp sem dögg fyrir sólu. Ekkert framundan nema brakandi blíðviðri í efnahagsmálum sem öðrum málum þjóðarinnar.

Og hverjir skyldu nú þar hafa talað, talsmaður uppgreiðslu skulda ríkissjóðs og hinn bölsýni meðreiðarsveinn hans? Nema ekki háttvirtir 2. þingmaður Suðurkjördæmis og 10. þingmaður Suðvesturkjördæmis, nei fyrirgefið þið, það var víst sá 11., ótrúlegt en satt.

K unnur maður í íslensku viðskiptalífi, Ragnar Kjartansson viðskiptafræðingur, var borinn til grafar í síðustu viku. Nokkra athygli vöktu ýmis eftirmæli um Ragnar, en þar var vikið að fyrirtækinu Hafskipum hf., gjaldþroti þess og því sem gjarnan var nefnt aðför að fyrirtækinu. Hafa þessi ummæli vakið forvitni ýmissa sem ekki þekkja lengur vel til þeirrar sögu. Af því tilefni má geta þess, að í tímaritinu Þjóðmálum hefur verið fjallað um einn anga þessa máls, það er að segja einstæða framgöngu nokkurra stjórnmálamanna sem spöruðu ekki stóru orðin. Er umfjöllun þessi í 4. hefti Þjóðmála árið 2006, en það hefti fæst stakt í Bóksölu Andríkis – og þar fæst vitaskuld einnig áskrift að þessu ómissandi tímariti.