Föstudagur 25. júlí 2008

207. tbl. 12. árg.

M ary Anastasia O’Grady gerir stjórnmálum í Mið- og Suður-Ameríku það sama og Nigella Lawson breskum mat. Lesendur The Wall Street Journal, sem hafa um árabil notið skoðana hennar í dálkum blaðsins, geta það nú einnig í sjónvarpssendingum á wsj.com. Nýlega varpaði vefsjónvarpið þeirri spurningu til hennar hvort stríð stjórnvalda í Bandaríkjunum við ólögleg fíkniefni væri að skila árangri. Tilefni spurningarinnar var að 75 háskólastúdentar voru handteknir við sölu fíkniefna á garði ríkisháskólans í San Diego. Meðal hinna handteknu voru meistaranemi í heimalandsvörnum og annar sem stefndi á frama innan löggæslunnar. Lögreglan þurfti lítið að hafa fyrir þessum handtökum því sala hinna ólöglegu efna fór jafnvel fram fyrir framan eftirlitsmyndavélar á skólalóðinni.

Stór hluti fíkniefna í Bandaríkjunum kemur frá Mið- og Suður-Ameríku. O’Grady bendir á að þegar menn leggja bann við notkun efna sé verðmæti þeirra aukið gríðarlega, að minnsta kosti á meðan eftirspurn svo mikil sem raun ber vitni í Bandaríkjunum. Það sé því ekki að undra að einhverjir sjái sér hag í að útvega Bandaríkjamönnum þessi efni. Mexíkóar láti ekki sitt eftir liggja í þeim efnum nú um stundir. Það sé alveg óraunhæft að ætlast til þess að stjórnvöld í fátækum löndum eins og Mexíkó geti stöðvað jafn arðbæran útflutningsiðnað. Arðurinn af fíkniefnaframleiðslunni sé svo nýttur til að fjármagna aðra skipulagða glæpastarfsemi í Mexíkó sem grafi enn frekar undan lögum og rétti í landinu og kosti mikinn fjölda lögreglumanna lífið á hverju ári.

O’Grady segir að þegar á allt sé litið verði fíkniefnavandinn ekki leystur með öðru en að hinn almenni maður missi lyst og áhuga á efnunum. Það sé hin siðferðilega afstaða sem Bandaríkjamenn verði að taka ef þeir vilji losna við fíkniefnin. Það sé siðlaust að ætlast til þess að fátækar þjóðir sunnan landamæranna leysi vandann.