Mánudagur 23. júní 2008

175. tbl. 12. árg.
Engu er líkara en að svonefndir „markaðsaðilar “ ætli að blása hlutabréfaverð svo hressilega upp að hvellurinn verði ógleymanlegur. Ekki síst þeim sem koma hlaupandi með sparifé sitt síðustu dagana til að „taka þátt í hækkunum“ eins og einn verðbréfasalinn orðaði það skömmu áður en síðasta bóla sprakk um aldamótin.
Vefþjóðviljinn 10. janúar 2006.

Ó li Björn Kárason gerði nýlega glögga grein fyrir hinu mikla falli á íslenskum hlutabréfum á vef sínum T24. Hann tók saman tap þriggja viðskiptablokka á bréfum í skráðum íslenskum félögum frá síðustu áramótum. Hlutabréfin voru 2.181 milljarða króna virði um áramótin en hafa fallið í verði um þriðjung eða 728 milljarða. Það munar um minna.

Þetta er mikið tap þótt auðvitað verði að líta á hlutina í stærra samhengi, ekki síst lengra samhengi, því hlutabréfaverð hafði stigið mjög skarpt áður en það tók að lækka síðasta haust. Það nær tvöfaldaðist til að mynda frá því Vefþjóðviljinn spáði því í janúar 2006 að bólan spryngi með hvelli þar til hún loks gerði það.

Þessi mikli hvellur og ýmis mistök sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja hafa gert á liðnum árum hafa að vonum orðið ýmsum yrkisefni. Flest kvæðin segja frá því að nýfrjálshyggjan hafi gengið sér til húðar og nú þurfi fleiri reglur og ríkisafskipti til að koma lagi á hlutina.

Það merkilega er að það eru ekki aðeins hefðbundnir andstæðingar frjáls markaðar sem kyrja þennan söng heldur einnig einstaka fulltrúar atvinnurekenda, sem bæði heimta stórbrotnar opinbera lántökur, vinnuaflsfrekar opinberar framkvæmdir og aukin umsvif Íbúðalánasjóðs ríkisins. Það er einmitt sjóðurinn sem á svo stóran þátt í því að eignabólan myndaðist. Útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hafa sömuleiðis aukist um 150 milljarða króna frá aldamótum og þrátt fyrir mikla grósku í efnahagslífinu undanfarin ár hefur hlutur hins opinbera í búskap Íslendinga aukist ár frá ári.

Lækningin á að fara fram með stærri skammti af eitrinu.