Helgarsprokið 22. júní 2008

174. tbl. 12. árg.

Þ að er misgaman að hlusta á setningarræður á opinberum tyllidögum. Oftast reyna ræðumenn engan að styggja með því að segja ekki neitt. Það þykir líklega faglegt og vandað nú um stundir. Stöku sinnum eiga ræðumenn þó erindi og láta það ekki stoppa sig að góðborgarar eru mættir á sparifötunum.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi setti hátíðarhöldin á Austurvelli 17. júní sem formaður þjóðhátíðarnefndar. Þar setti hann aldur íslenska lýðveldisins í samhengi.

Við höldum 17. júní hátíðlegan til að minnast þess þegar Íslendingar endurheimtu sjálfstæði sitt fyrir 64 árum. Einhverjum finnst það ef til vill langt aftur í grárri forneskju, en þá er rétt að hafa í huga að meðal-Íslendingurinn getur vænst þess að lifa um 18 árum lengur en lýðveldið hefur gert til þessa.

En hvað eru 64 ár? Árið 1944 hafði Ísland verið meira en tíu sinnum lengur undir erlendum yfirráðum — eða í 682 ár. Þar á undan hafði Ísland verið sjálfstætt í 388 ár.

Adam frá Brimum, einn helsti sagnaþulur miðalda, ritaði á elleftu öld athugasemd um þjóðveldið og Íslendinga og sagði: „meðal þeirra er enginn kóngur utan lögin ein“. Er það ekki lýsing á fyrirmyndarríki? Úti í hinum stóra heimi töldu sumir það þó nánast ganga gegn skikkan skaparans, að Íslendingar hefðu engan kóng og þeir vörpuðu öndinni örugglega léttar þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd.

Kjartan varpaði einnig ljósi á hve skammvinnur hinn mikli ávinningur Íslendinga gæti reynst ef fjarlægum höfðingjum væri falin stjórn íslenskra mála.

Andvörp Íslendinga stóðu hins vegar í tæpar sjö aldir. Hin erlendu yfirráð reyndust þjóðinni ekki til mikillar gæfu þó til þeirra hafi verið stofnað í góðri trú um innanlandsfrið, hagsæld og bætt samskipti við umheiminn. Samt voru hinir erlendu konungar Íslands ekki illir kúgarar, en áhugaleysi þeirra, afskiptaleysi og fjarlægð reyndist Íslendingum til óþurftar og aukinnar einangrunar um langar aldir.

Þetta eru orð að sönnu. Það er engin ástæða til að ætla að erlent yfirvald myndi vilja Íslendingum illt. Og sem kunnugt er tekst innlendu yfirvaldi ekki alltaf vel til. En innlenda valdinu má þó koma frá á nokkurra ára fresti; það þarf að sæta dómi kjósenda. Skriffinnar handan hafsins bera enga slíka ábyrgð gagnvart íslenskum kjósendum. Einu gildir hvort þeir sitja í Kaupmannahöfn eða Brussel.

Og formaður þjóðhátíðarnefndar lagði áherslu á það í ræðu sinni að sjálfstæðisbaráttunni væri hvergi lokið.

Ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin í dag, er þó ekki aðeins sú að minnast hins liðna og brautryðjendanna. — Þessi samkoma er ekki síður sjálfum okkur til áminningar. Sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lauk nefnilega ekki hinn 17. júní 1944. Hún stendur enn yfir og henni mun aldrei ljúka. Því sjálfstæði Íslendinga varðar fleiri en lýðveldiskynslóðina. Það er óþrjótandi erindi allra góðra Íslendinga.

Við erum þjóð landnema, sem hingað komu í leit að sjálfstæði, og enn eru að koma landnemar: nýir, góðir Íslendingar, sem einnig eru að leita frelsis og farsældar. Sjálfstæðisbaráttan er þeim ekki minna hagsmunamál en Ingólfi Arnarsyni forðum daga. Sjálfstæðisbaráttan varðaði ekki síður allar þær kynslóðir, sem hér lifðu og dóu undir erlendum yfirráðum, hún varðar kynslóð okkar og kynslóðirnar sem á eftir ganga, svo þær geti talist góðir Íslendingar líka. Þess vegna stöndum við hér og skipum okkur í sveit með Jóni Sigurðssyni og öðrum góðum Íslendingum.