Laugardagur 21. júní 2008

173. tbl. 12. árg.

Þ roskuð, opin og málefnaleg umræða um Evrópumál heitir það víst þegar allir eru sammála um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og enginn vogar sér að efast um að það sé æskilegt skref. Það er að segja samkvæmt kokkabókum áhugamanna um slíka aðild. Það hefur komið alveg skýrt fram í málflutningi þeirra undanfarin ár að þeir sem af einhverjum ástæðum eru lítið spenntir fyrir því að ganga ESB á hönd séu hreinlega ekkert að ræða málin. „Skilyrt umræða“ er kannski ágætis skilgreining á fyrirbærinu hjá hinum sem telja að æskilegra sé að ræða málin í víðara samhengi.

Í þessum sama anda hafa aðildarsinnar sakað þá stjórnmálaflokka sem ekki eru ýkja spenntir fyrir ESB-aðild um að hafa enga stefnu í Evrópumálum. Sérstaklega hefur slíkum ásökunum verið beint að Sjálfstæðisflokknum þó ljóst sé að stefna hans er mjög skýr. Því til viðbótar hafa þeir fullyrt að engin umræða um málaflokkinn fari fram innan flokksins. En í ljósi þess hvað þessir aðilar kalla „umræðu um Evrópumál“ hafa þeir líklega rétt fyrir sér. Ef þeir hafa hins vegar talið sig greina einhvern jákvæðan tón gagnvart ESB-aðild í einhverjum flokknum hafa þeir fagnað því að umræða um Evrópumálin væri þar með hafin á þeim bænum!

Skilaboðin eru þau að þeir sem ekki eru sammála ESB-sinnunum séu bara aldeilis ekkert að ræða málin. Og gott ef þeir hafi bara enga skoðun á málaflokknum heldur fyrst þeir vilja ekki ganga í ESB. Rétt eins og sá flokkur sem ekki er hlynntur slíkri aðild er þar með stefnulaus með öllu í þeim málum.