Föstudagur 20. júní 2008

172. tbl. 12. árg.
Það þarf í sjálfu sér engar vangaveltur um og litla vinnu til viðbótar um kosti og galla umsóknar [um aðild að ESB]. Öll gögn málsins liggja meira og minna fyrir, meðal annars af hendi þeirrar ágætu Evrópunefndar sem við Björn [Bjarnason dómsmálaráðherra] sátum báðir í.
– Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra 20. apríl 2008.

B oðskapur áhugamanna um aðild að Evrópusambandinu er sá að nauðsynlegt sé að hefja viðræður um aðild til þess að fá úr því skorið hvað sé í boði og hvað ekki eins og það er gjarnan orðað. Þetta er án efa nokkuð þægileg afgreiðsla á málinu í hugum margra sem nenna hreinlega ekki að kynna sér Evrópumálin og ímynda sér að aðildarsamningur við ESB muni leiða í ljós allt sem þeir þurfi að vita um málið. En eins og til að mynda Össur Skarphéðinsson hefur bent á, þvert á fullyrðingar flestra ef ekki allra annarra aðildarsinna, liggja þær upplýsingar nú þegar að langmestu leyti fyrir.

Raunveruleikinn er sá að svigrúmið í aðildarviðræðum við ESB er afskaplega þröngt. Það er ekki margt sem hægt er að semja um og í raun ekkert sem flokkast getur sem grundvallaratriði. Ekki yrði samið um það hvert vægi Íslendinga innan ESB yrði við aðild enda stjórnast vægi aðildarríkjanna af því hversu fjölmenn þau eru. Íslendingar yrðu nánast áhrifalausir fyrir vikið. Ekki yrði heldur samið um það hvort yfirráðin yfir auðlindum Íslandsmiða færðust til Brussel eða ekki. Þangað færu þau kæmi til aðildar í samræmi við sjávarútvegsstefnu ESB.

Eins og Evrópunefnd forsætisráðherra komst að raun um í samtölum sínum við fulltrúa ESB eru slíkar aðildarviðræður í raun eins og krossapróf. Fyrst er merkt við þau skilyrði fyrir aðild sem umsóknarríkið uppfyllir þegar og síðan ganga viðræðurnar út á það hversu langan aðlögunartíma ríkið þurfi til að uppfylla afganginn. Reynslan sýnir að hvers kyns varanlegar undanþágur frá meginreglum ESB er eitur í beinum embættismanna þess og því eru þær ekki í boði í neinu sem máli skiptir. Í besta falli er í boði tímabundinn aðlögunartími eins og Norðmönnum var boðið upp á og afþökkuðu.

Eins og Össur nefnir réttilega liggja allar upplýsingar meira eða minna þegar fyrir um kosti og galla aðildar að ESB. Þar kemur einkum til álita títtnefnd skýrsla Evrópunefndar forsætisráðherra sem kom út fyrir rúmu ári og er afrakstur umfangsmikillar rannsóknarvinnu fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna undir formennsku Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Það eina sem vantar er nenna til að kynna sér málið.