Þriðjudagur 24. júní 2008

176. tbl. 12. árg.

E r einhver sérstakur áhugi til staðar á meðal almennings á aðild að Evrópusambandinu? Það er fullt tilefni til að spyrja þeirrar spurningar. Það vantar ekki að áhugamenn um slíka aðild staðhæfi reglulega að hávær krafa sé uppi á meðal fólks um að farið verði í aðildarviðræður við ESB. Rökin fyrir fullyrðingum sínum sækja aðildarsinnarnir í skoðanakannanir sem bent hafa til umtalsverðs stuðnings við að slíkt skref verði tekið. En helsti gallinn við þær skoðanakannanir er sá að þær segja ekkert til um það hversu miklu máli Evrópumálin skipta þá sem spurðir eru. En hefur það verið kannað sérstaklega? Svo vill raunar til.

Í aðdraganda þingkosninganna á síðasta ári lét Fréttablaðið gera tvær skoðanakannanir þar sem fólk var beðið að raða helstu málaflokkum í röð eftir mikilvægi. Frá þeim sem það teldi mjög mikilvægan og niður í þann sem það teldi mjög léttvægan. Fyrri könnunin var gerð í mars og sú síðari í apríl og er skemmst frá því að segja að Evrópumálin lentu í öðru af tveimur neðstu sætunum í fyrri skiptið og í því neðsta í því síðara. Áhuginn var samkvæmt því ekki meiri á Evrópumálunum en sem þessu nam og því vart að furða að málaflokkurinn hefði ekki orðið að kosningamáli í það skiptið frekar en áður.

Annað sem bendir ekki til þess að Evrópumálin skipti íslenskan almenning ýkja miklu máli er sú staðreynd að þeir stjórnmálaflokkar, sem hafa hvað minnstan áhuga á ESB-aðild, bættu einir fylgi við sig í síðustu þingkosningum, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Samfylkingin tapaði hins vegar miklu fylgi í kosningunum og sömu sögu er að segja um Framsóknarflokkinn, þá tvo stjórnmálaflokka sem mest hafa daðrað við aðild að ESB. Það var ekki fyrr en Samfylkingin varð aðili að ríkisstjórn, sem hafði þá yfirlýstu stefnu að ekki skyldi gengið í ESB, að fylgi flokksins fór að rétta úr kútnum.

Ef aðild að ESB er svona mikilvægt mál fyrir íslenskan almenning og jafnvel stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, eins og áhugamenn um hana halda fram, hvers vegna hrynur þá ekki fylgið af þeim flokkum þar sem hvað eindregnasta andstöðu er að finna við slíka aðild?