Þriðjudagur 17. júní 2008

169. tbl. 12. árg.
Veraldarsagan ber ljóst vitni þess að hverri þjóð hefir þá vegnað best þegar hún hefir sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu.
– Jón Sigurðsson forseti í riti sínu Um Alþíng á Íslandi.

Þ að var 17. júní árið 1944 sem langþráður draumur varð að veruleika þegar íslenska þjóðin gat loks um frjálst höfuð strokið eftir að hafa verið undir erlent vald sett í 682 ár. Síðustu 100 árin á undan eða svo hafði sjálfstæðisbarátta Íslendinga staðið yfir og á þeim tíma höfðu unnist margir áfangasigrar. Samhliða því að stöðugt meira sjálfsákvörðunarvald hafði verið fært úr höndum erlendra embættismanna og til Íslendinga höfðu orðið sífellt hraðari þjóðfélagsumbætur hér á landi og eftir að sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar hafði loks verið endurheimt jókst hraði þeirra til muna. Sjálfsagt er flestum Íslendingum þetta ágætlega kunnugt.

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga er allajafna skilgreind sem afmarkað tímabil í Íslandssögunni sem hafi lokið 17. júní 1944. En í raun má segja að sjálfstæðisbaráttan sé enn í fullum gangi og því hvergi nærri lokið. Fram til ársins 1944 var barist fyrir því að endurheimta sjálfstæðið en eftir að það markmið var í höfn tók við baráttan við að standa vörð um það sem hafði áunnist. Og það hefur verið full þörf á þeirri varnarbaráttu og verður áfram á meðan Íslendingar hafa vilja og þor til að standa vörð um frelsi sitt og hagsmuni.

Það sjálfstæði sem Íslendingar börðust fyrir og öðluðust á sínum tíma er ekki sjálfsagt og því er auðveldlega hægt að glata á ný ef sofið er á verðinum. Mannkynssagan er full af sögum um baráttu þjóða fyrir sjálfstæði þótt í seinni tíð hafi þau átök sem betur fer yfirleitt farið fram á pólitíska sviðinu en ekki á vígvöllunum. Nærtækasta dæmið er Færeyingar. En mannkynssagan er ekki síður full af dæmum um þjóðir sem glatað hafa sjálfstæði sínu á einn eða annan hátt og þá jafnvel aldrei endurheimt það.

Bæði hér innanlands og erlendis eru aðilar sem vilja sjálfstæði Íslendinga fyrir alla muni feigt og sem vilja koma okkur hið fyrsta undir erlent vald á ný. Rökin eru einkum innantómar fullyrðingar um að þjóðin sé of fámenn til að halda úti sjálfstæðu ríki og þar með talið sjálfstæðum gjaldmiðli, efnahagsstjórn og þar fram eftir götunum. Þarna eru á ferðinni áhugamenn um að gera Ísland að jaðarhéraði innan þess miðstýrða evrópska ríkis sem verið er að breyta Evrópusambandinu leynt og ljóst í.

Með yfirlýsingum sínum eru þessir aðilar í reynd að lýsa því yfir að sjálfstæðisbarátta Íslendinga hafi verið hrein og klár mistök. Íslendingar hefðu aldrei átt að lýsa yfir sjálfstæði og að fullveldi þjóðarinnar hefði verið betur komið í höndum erlendra aðila. Þessu lýsa þeir þó yfirleitt ekki yfir beinum orðum enda varla líklegt til vinsælda þó sumir þeirra séu reyndar hreinskilnari en aðrir. En þetta er engu að síður boðskapurinn í áróðri þeirra um að þjóðin þurfi sem allra fyrst að komast aftur undir erlend yfirráð.

En hvað sem líður þessum áróðri þá er afskaplega skiljanlegt að lítil stemning sé á meðal forystumanna íslenskra stjórnmálaflokka – að Samfylkingunni auðvitað undanskilinni – fyrir því að verða minnst í Íslandssögunni fyrir það að hafa gert sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að engu og komið henni undir erlent, miðstýrt vald á nýjan leik.