Mánudagur 16. júní 2008

168. tbl. 12. árg.

Í rsku Evrópusambandskosningarnar ætla að verða jafn lærdómsríkar og aðrar Evrópusambandskosningar.

Leiðtogar Evrópusambandsins segja að niðurstaða kosninganna skipti í raun engu máli. Írar séu svo fáir – ekki nema rúmar 6 milljónir – að þeirra skoðun á málinu hafi engin áhrif heldur sé þeirra eigið „vandamál“ sem þeir  þurfi að „leysa“. Í Brussel leggja menn áherslu á að þessari aðildarþjóð verði gefið langt nef, með því að önnur lönd haldi áfram að „fullgilda“ sáttmálann sem búið er að hafna.

Það er skilyrði fyrir gildistöku stjórnarskrárinnar, „Lissabon-sáttmálans“, að öll aðildarríkin staðfesti hana. Nú hefur eitt þeirra hafnað því með þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfirstéttin í Brussel ætlar samt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Svo eru til menn sem halda að „smáríki hafi mikil áhrif“ innan Evrópusambandsins. Lítil fórn að gefa eftir fullveldi sitt, fyrir öll áhrifin við stóra borðið í Brussel.

Og nú eru þeir í Brussel byrjaðir á öðrum hluta hefðbundinna viðbragða við þjóðaratkvæðagreiðslum aðildarríkjanna. Nú segja þeir mikilvægt að finna út hvað það hafi verið sem Írar hafi í raun verið að kjósa gegn – því ekki má það hafa verið sáttmálinn sem nefndur var á kjörseðlinum. Rétt eins og þegar Frakkar höfnuðu frönsku stjórnarskránni, þá sagði yfirstéttin í Brussel að nei-atkvæðin væru bara andstaða við Chirac. Þegar Hollendingar höfnuðu sömu stjórnarskrá, þá gaf Brussel þá skýringu að þeir hefðu aðeins verið að lýsa andstöðu við Tyrki. Aldrei má segja það sem blasir við: Kjósendur eru að hafna sambandsríkinu sem þeir í Brussel eru staðráðnir í að mynda handa sér.

Írsk stjórnvöld komust að því, strax og úrslit lágu fyrir, að því miður hefðu írskir kjósendur ekki verið nægilega upplýstir um stjórnarskrána. Þó hafði allt verið gert til að fræða vitleysingana, og til að baráttan yrði öfgalaus hafði írska þingið meira að segja sérstaklega samþykkt, að hið opinbera skyldi fræða landsmenn um kosti skrárinnar en ekki galla hennar. En allt kom fyrir ekki. Fólk hafði ekki réttar upplýsingar og kaus vitlaust. Þetta þýðir líklega að stórefla verður fræðsluna og kjósa aftur.

Evrópusambandið lýtur vilja ókosinnar forystu sinnar og herskara diplómata. Almennir borgarar þykja þar engu máli skipta, nema sem tannhjól í vél. Þeir sem enn tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu ættu að tala hreint út um það sem þeir vilja í raun: „Við viljum að Ísland afsali sér fullveldi sínu í eins miklum mæli og kostur er, til erlends embættismannakerfis sem íslenskir kjósendur hafa ekkert um að segja.“ Það sem oft er kallað „Evrópuumræðan“ snýst í raun um þetta eitt. Vilja menn þetta, eða vilja menn það ekki?