Helgarsprokið 15. júní 2008

167. tbl. 12. árg.

N ú þegar kreppir að á fjármálamörkuðum og útrásarfurstarnir hafa misst glansinn er ekki skrýtið þótt augu fólks beinist aftur að hinum gamla og góða sjávarútvegi. Líklega voru flestir búnir að gleyma því að fiskurinn í sjónum og nýting hans væri mikilvægur fyrir þjóðarbúið. Enginn þótti maður með mönnum nema hann væri í fjárfestingarstarfsemi og allt annað þótti eiginlega bara hallærislegt og gamaldags, ekki síst sjávarútvegurinn. Allt átti að snúast um fjármál, nýsköpun, þekkingariðnað og þar fram eftir götunum.

Þegar Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra dró úr leyfilegum hámarksafla um þriðjung síðasta sumar, heyrðust þær raddir að þetta skipti nú svo sem engu máli. Stóru peningarnir væru annars staðar og litlu skipti hvort dregin væru fleiri eða færri bein úr sjó.

„Atvinnurekstur á borð við sjóstangaveiði fyrir ferðamenn sýnir einmitt svart á hvítu hvað kvótakerfið býður upp á marga möguleika. Það er ekki víst að fyrirtæki sem þetta hefði fengið aflamark og leyfi til veiða í gamla kerfinu þegar menn fengu veiðileyfi upp á náð og miskunn embættismanna í ráðuneytum og stofnunum. Ætli það hefði ekki verið torsótt að fá veiðileyfi fyrir „sportkalla og kellingar“ í gamla kerfinu sem byggðist allt á beinni stjórnun og íhlutun? Í kvótakerfinu getur fyrirtæki líkt og þetta einfaldlega keypt sér kvóta á markaði.“

Það rifjaðist reyndar upp fyrir sumum að hér væri stundaður sjávarútvegur þegar nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum komst að þeirri niðurstöðu að íslenska kvótakerfið stangaðist á við alþjóðlega mannréttindasáttmála. Það er reyndar alveg ævintýralegt að hægt skuli vera að komast að þeirri niðurstöðu að nýtingarkerfi sem byggist á eignarréttindum og frjálsum viðskiptum skuli ganga í berhögg við almenn mannréttindi. Það væri gaman að leggja fyrir sömu nefnd hvort eignarhald á landi brjóti einnig í bága við mannréttindi? Það er alveg ótækt að sumir skuli eiga land, megi girða það af og banna öðrum notkun þess, eða hvað? Reyndar er talið að vel skilgreindur eignarréttur á landi hafi verið forsenda landbúnaðarbyltingarinnar í árdaga. Sú bylting er ein fárra sem leitt hefur af sér aukna velsæld mannkyns og var stórt skref í framfaraátt fyrir mannkynið allt.

Undanfarin ár hafa ýmsir og þá sérstaklega ýmsir stjórnmálamenn og sjálfskipaðir hugsuðir, talað fjálglega um að framtíðin lægi í þekkingariðnaði og nýsköpun, eins og fyrr hefur verið rakið. Það var því áhugavert að hlýða á fyrirlestur Xavier Sala-i-Martin, prófessors við Columbia háskóla, sem hann hélt við Háskóla Íslands ekki alls fyrir löngu. Í fyrirlestri sínum fjallaði þessi þekkti prófessor um samkeppnishæfni þjóða og hvað það er sem skiptir ræður því hvort samkeppnishæfni einnar þjóðar eykst eða minnkar í samanburði við aðrar þjóðir.

Sala-i-Martin benti á það í fyrirlestri sínum að flestar nýjungar eru afleiddar af því sem þegar er til staðar, fæstar nýjungar eru alveg nýjar. Þær fela það frekar í sér að umbæta það eða þær aðferðir sem þegar eru notaðar við framleiðslu. Oftast er um að ræða að einhver starfsmaður fyrirtækis sér möguleika á að gera eitthvað betur eða á hagkvæmari hátt og ákveður að fylgja hugmyndinni eftir með því að stofna fyrirtæki og hrinda henni í framkvæmd.

Nýlega kom upp hin skemmtilegasta deila innan sjávarútvegsins. Sumir sjómenn, sem flestir kalla sig smábátasjómenn, ásaka aðra sjómenn, sem ekki hafa fengið sérstakt nafn ennþá, um að hafa hækkað verð á kvóta í þorski, ýsu ufsa og steinbít. Hallgrímur Guðmundsson, sem er formaður félagsskapar sem kallast Framtíð, samtök sjálfstæðra í sjávarútvegi, útskýrir þetta þannig að þessir „hinir“ hafi með kaupum sínum aukið eftirspurn eftir kvóta og þar með hækkað verðið. „Hinir“ eru í raun fyrirtæki sem kallast Hvíldarklettur og býður uppá sjóstangaveiði fyrir ferðamenn frá Suðureyri. Elías Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Hvíldarkletts, dregur reyndar fullyrðingar sjálfstæðra í sjávarútvegi mjög í efa.

Þetta er hin athyglisverðasta deila, í ljósi þess boðskapar sem Xavier Sala-i-Martin flutti í Háskólanum á dögunum. Sjóstangaveiði fyrir ferðamenn er einmitt nýsköpun og þróun í sjávarútvegi sem svo oft hefur verið hamrað á að sé nauðsynleg og forsenda framfara. Ekki spillir fyrir að útgerð þessi er rekin frá Vestfjörðum þar sem atvinnuástand hefur ekki verið of beysið undanfarin árin og fólksflótti landlægur. Atvinnurekstur á borð við sjóstangaveiði fyrir ferðamenn sýnir einmitt svart á hvítu hvað kvótakerfið býður upp á marga möguleika. Það er ekki víst að fyrirtæki sem þetta hefði fengið aflamark og leyfi til veiða í gamla kerfinu þegar menn fengu veiðileyfi upp á náð og miskunn embættismanna í ráðuneytum og stofnunum. Ætli það hefði ekki verið torsótt að fá veiðileyfi fyrir „sportkalla og kellingar“ í gamla kerfinu sem byggðist allt á beinni stjórnun og íhlutun? Í kvótakerfinu getur fyrirtæki líkt og þetta einfaldlega keypt sér kvóta á markaði.

Það er reyndar dálítið broslegt að velta fyrir fyrir sér nöfnum Framtíð og Hvíldarklettur. Hvíldarklettur er greinilega fyrirtæki framtíðarinnar, þar sem á sér stað nýsköpun í sjávarútvegi, en Framtíð stendur eins og klettur gegn öllum slíkum breytingum.