Laugardagur 14. júní 2008

166. tbl. 12. árg.

M eira klúðrið hjá Írum. Nú þurfa þeir að kjósa aftur. En þeir geta sjálfum sér um kennt. Kusu vitlaust.

Rétt eins og íslenskt sveitafólk hefur svo oft gert þegar það fær að kjósa um sameiningu sveitarfélaga. Þar þarf iðulega að láta kjósa aftur. Nema þegar sameining er samþykkt. Þá er aldrei kosið framar.

Raunar hafa íslenskir sameiningarsinnar auk þess fundið nýja aðferð. Sé kosið um sameiningu fleiri sveitarfélaga en tveggja, og sum fella en önnur samþykkja, þá má, án kosningar, sameina þau sem samþykktu, jafnvel þó kjósendur þar hafi í raun verið að samþykkja allt aðra sameiningu en þeir fá þannig yfir sig. Þetta myndu þeir í Brussel kunna að meta.

En Evrópusambandið er bara eins og það er. Það snýst um forystu þess og starfsmenn þess, ekki fólkið í aðildarríkjunum.

Þetta er ekki fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan sem fer fram um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Í Frakklandi höfnuðu 55 % henni, í Hollandi 62 % takk fyrir. Brusseljurnar sáu þá að ekki væri ráð að spyrja almenna borgara frekar, breyttu um nafn á stjórnarskránni og héldu henni þannig frá þjóðunum. Framhjá Írum varð þó ekki komist atkvæðagreiðslulaust og þar höfnuðu nú 53 % stjórnarskránni þegar hún var borin upp undir dulnefni. Og höfðingjarnir í Brussel koma núna hver á fætur öðrum og segja að haldið verði áfram eins og ekkert hafi í skorist. Engir hafa sem þeir gert að sínu það heldur óviðfelldna vígorð: Nei er ekkert svar.

Og inn í þetta vilja hinar talandi stéttir endilega koma Íslendingum. Þessu bákni vilja þær afhenda fullveldi Íslands. En gott hjá Írum og gott á þá í Brussel – þó þeir geri auðvitað ekkert með þetta frekar en annað.

Í síðustu viku sagði Vefþjóðviljinn frá nýútkomnu sumarhefti tímaritsins Þjóðmála sem og því að lesendum Vefþjóðviljans byðist í eina viku að kaupa ársáskrift að tímaritinu á gamla verðinu. Það tilboð rennur út í dag.