Föstudagur 13. júní 2008

165. tbl. 12. árg.

S amtök atvinnulífsins voru að senda frá sér kröfugerð. Þau vilja að ríkið auki nú „mannaflsfrekar framkvæmdir“. Svo þarf ríkið líka að koma í veg fyrir að húsnæðisverð lækki. Þetta á ríkið að drífa sig í að gera.

Ætli Samtök atvinnulífsins hafi velt því fyrir sér hvaðan peningarnir fyrir „mannaflsfrekum framkvæmdum“ myndu koma? Sennilega hefur bara ekki gefist tími til þess. En þá er ekki nema sjálfsagt að upplýsa samtökin um það.

Peningarnir fyrir framkvæmdunum sem Samtök atvinnulífsins heimta að farið verði út í, þeir koma frá skattgreiðendum. Það verða teknir peningar af venjulegu fólki, sem margt hvert stendur nú í ströngu við að láta enda ná saman, og settir í verkefni fyrir Samtök atvinnulífsins. Skattgreiðendur hafa þá minna milli handanna til að verja í það sem þeir telja sig þurfa. Ætli það geti verið að þar tapist atvinna? Eða skapa peningar bara atvinnu þegar ríkið eyðir þeim og þá helst samkvæmt forskrift Samtaka atvinnulífsins?

Og svo vilja þessi samtök að ríkið sjái til þess að húsnæðisverð haldist hátt. Af umhyggju fyrir hverjum ætli það sé? Af hverju vilja samtökin endilega að þessi nauðsynjavara, húsnæði, haldist jafn dýr og hún varð fyrir nokkrum misserum? Af hverju ætli þau vilji að hið opinbera blandi sér í það? Kannski af umhyggju fyrir fólki sem þarf að koma þaki yfir höfuðið?

Fyrir nokkrum árum hófu viðskiptabankarnir að lána til íbúðarkaupa, á lágum vöxtum og jafnvel fyrir öllu kaupverði. Það var þeirra val  þótt þeir ættu í harðvítugri og ríkisstyrktri keppni við Íbúðalánasjóð ríkisins. Skiljanlega gengu margir að slíku boði, fasteignir voru seldar og keyptar um allan bæ á óþekktum hraða, bankar lánuðu og lánuðu, og verð rauk upp. Nú er hins vegar öldin önnur, bankar eru að mestu hættir þessum lánveitingum, en eiga veð í ógrynni húsa. Og það er mjög mikilvægt að húsnæðisverð haldist sem lengst í þeim hæðum sem það komst í þegar bankarnir byrjuðu að lána.

Af hverju þurfa Samtök atvinnulífsins endilega að heimta „mannaflsfrekar opinberar framkvæmdir“? Af hverju má ekki fara fram á skattalækkanir svo fólk geti varið peningum eins og það sjálft vill, og þannig skapað aukin viðskipti og aukna atvinnu? Af hverju geta menn ekki líka verið markaðssinnaðir þegar gefur á bátinn?