Fimmtudagur 12. júní 2008

164. tbl. 12. árg.

N eytendastofa ríkisins hefur lagt bann við kaffiauglýsingu með Kristni R. Ólafssyni í Madrid. Hvernig færu neytendur að án vökuls auga ríkisins? Í auglýsingunni segir Kristinn R. brosandi að sér þyki kaffisopinn nú bestur heima þótt urmull góðra kaffihúsa sé í Madrid. Kaffiheildsalan sem auglýsir leggur út af því og segir uppáhellinguna frá sér í raun besta kaffihúsið í bænum. Það segir kvenmannsrödd í lok auglýsingarinnar. Og það er bannað.

Í rannsókn sinni á hinum miklu sakarefnum hefur Neytendastofa komist að því að kvenmannsröddin sé ekki rödd Kristins R. og þar með sé hann ekki að lýsa þeirri skoðun að kaffið lagað heima í eldhúsi sé besta kaffihúsið í bænum. Hér er tilefni til að bæta við einu ævintýri í ritröðina um Sherlock Holmes. Ofan á þessi miklu spjöll bætist svo að kaffihús kennd við þessa kaffitegundina Merrild munu ekki vera til. Aha.

„Að mati Neytendastofu er augljós sá tilgangur fullyrðingarinnar að gefa þá mynd að Merrild sé besta kaffið. Slík fullyrðing hlýtur að vera byggð á mati en ekki staðreyndum,“ segir Neytendastofa og telur að þar með brjóti auglýsingin í bága við lög.

Það er oft sagt að Íslendingar séu lélegir neytendur og láti bjóða sér hvað sem er. Ef það er nú rétt gæti verið að það hafi eitthvað með það að gera að hið opinbera hefur áratugum saman reynt að gera íslenska neytendur meðvitundarlausa? Fyrst voru það höftin og verðlagseftirlitið og þegar því rugli lauk loks heltust yfir landsmenn neytendatilskipanir og stöðlunarárátta Evrópusambandsins. Hvenær fá neytendur leyfi til að hugsa og meta hlutina sjálfir? Er nokkuð eftir þegar Kristinn R. er bannfærður fyrir meintar tilraunir til að afvegaleiða neytendur í góðlátlegri kaffiauglýsingu?