Miðvikudagur 11. júní 2008

163. tbl. 12. árg.

Í gær sagði Morgunblaðið frá því að í Þýskalandi vildu jafnaðarmenn nú banna starfsemi stjórnmálaflokks eins, „Þýska þjóðarflokksins“. Kristilegir demókratar vildu það síður, en ekki með þeim rökum að ekki sé lýðræðislegt að banna þá flokka sem hópar landsmanna vilja víst kjósa, heldur vegna þess að slíkt gæti orðið flokknum mikil lyftistöng. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn nú að skipta sér af því hvaða félög Þjóðverjar leyfa eða banna hjá sér, þó vissulega sé fróðlegt að heyra að jafnaðarmönnum þyki svo vel hafa tekist til, síðast þegar þýsk stjórnvöld stóðu í því að banna stjórnmálaflokka, að ástæða sé til að gera sífellt meira af slíku.

Það sem blaðið vildi hins vegar nefna, er smáatriði en þreytandi þó. Í svonefndri „fréttaskýringu“ segir Morgunblaðið að „ofbeldi og ógnanir af hendi öfgahægrisinna virðast færast í aukana í Þýskalandi“ og bætir við þeim slæmu fréttum að í „mars síðastliðnum voru glæpir sem raktir eru til kynþáttahaturs eða öfgahægristefnu 1,311 [svo] talsins en það eru 458 fleiri tilfelli en tilkynnt var um í mars á síðasta ári.“

Hvers vegna staglast Morgunblaðið á því að þessi félagsskapur sé hægrisinnaður og raunar svo mjög að blaðið telur rétt að kalla hann öfgahægrisinnaðan? Hvaða hægristefna er það sem þessir menn boða? Og ef að þessir menn sæju nú að sér og legðu meiri áherslu á einstaklingsfrelsi en minni á hóphyggju og aðgerðir ríkisins – væru þeir þá að mati blaðsins meiri eða minni hægrimenn en áður?

Nú fylgdi ekki „fréttaskýringu“ Morgunblaðsins neitt sérstakt um stefnu þessa flokks, Þýska þjóðarflokksins, en ef það er rétt að þarna séu á ferð hreinir og klárir kynþáttarhatarar, af hverju má þá ekki bara kalla þá það? Af hverju þarf að kalla þá „öfgahægrimenn“? Og fyrst blaðið kallar þessa gæja öfgahægrimenn, hvað finnst Morgunblaðinu þá um hefðbundna hægrimenn? Eru þeir þá, með sömu rökum, hófsamir kynþáttahatarar? Kannski er það viðtekin trú þessi misserin í Morgunblaðshúsinu.

M eira af Morgunblaðinu. Sá einstaki miðill, netmorgunblaðið sagði í gær tvær áríðandi stórfréttir sem snerta bandarísk stjórnmál og hugmyndir evrópska fjölmiðlamanna um þau. Fyrst var sögð um það mikil frétt að Norðmaður nokkur hefði í bók raðað forsetum Bandaríkjanna niður eftir ágæti þeirra, og algerlega óvænt úrslit urðu að George W. Bush væri versti forseti í sögu Bandaríkjanna. Þarf þá ekki frekari vitna við og vestrænir blaðamenn kinka kolli hver með öðrum.

Næsta frétt var um Barack Obama. Að vísu er ekki enn hægt að segja margt um stjórnmálaferil hans því hann var að hefjast, en það er engin ástæða til að láta það stöðva sig. Morgunblaðið sló upp þeim gleðitíðindum að Barack Obama væri meðal 10 best klæddu karlmanna í veröldinni.

Já kæru lesendur. Dökku jakkafötin hans eru miklu fallegri en allra hinna.