Miðvikudagur 28. maí 2008

149. tbl. 12. árg.

B orgarstjórn Reykjavíkur er mikil uppspretta gáfulegra kenninga. Það er til dæmis vinsæl kenning í gaspurheimum að það sé sérstakt siðleysi í því fólgið hjá Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn Reykjavíkur að styðja Ólaf F. Magnússon til að vera borgarstjóri. „Gersamlega fylgislausan mann“.

Fyrir örfáum vikum þótti ekkert nema gott um að vinstrimenn í Reykjavík styddu Ólaf F. Magnússon til að vera forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Þar áður höfðu þeir gert varaborgarfulltrúa að forseta borgarstjórnar. Og oddvita Framsóknarflokksins til að vera formaður borgarráðs, og naut Framsóknarflokkurinn þá ekki sérstaks stuðnings í skoðanakönnunum. Þetta þótti hvergi neitt siðferðislega ámælisvert. Enda ekki fyrr en Ólafur hættir að styðja vinstrimeirihluta sem hann verður svo ómögulegur og fylgislaus að enginn má styðja hann til neins.

Eins og hann þótti nú flottur og fylginn sér þegar hann fór úr Sjálfstæðisflokknum.

K ettir heita gjarnan eftir persónum úr veraldarsögunni sem fengið hafa milda dóma; Sókrates, Njáll, Grettir. Hundar sitja hins vegar oft uppi með nöfn heldur lakari karaktera; Neró, Brútus, Júdas, Plató. Það er ekki að ástæðulausu sem sagt er að maður megi hundur heita.

Í Morgunblaðinu í gær auglýsir maður eftir nýju heimili fyrir kött sinn. Segir þar að kötturinn nefnist Franz Jósef til heiðurs þeim ágæta keisara Austurríkis-Ungverjalands, en síðar hafi því miður komið í ljós að kötturinn er læða en ekki fress. Vanti hann því líka nýtt nafn.

Mætti Vefþjóðviljinn gera það sem augljóst er, og stinga upp á Sisi?

A f og til komast orð í umferð sem nær allir nota um hríð. Hvað hét það nú aftur hagkerfið ósigrandi á tímum netbólunnar? „Nýja hagkerfið“, var það ekki? Þetta hugtak átti að lýsa því að menn væru orðnir svo tæknivæddir, flinkir að reikna með nýju tölvunum sínum og með allar upplýsingar tiltækar á netinu að það yrðu ekki gerð mistök í rekstri hins opinbera eða fyrirtækja framar. Það er kannski ofmælt að ekkert sé eftir af netbólunni nema Google og Vefþjóðviljinn en netfyrirtækin fengu að kynnast því sama og fyrirtæki á öllum öðrum nýjum sviðum hafa fengið að reyna. Það lifir enginn á loftinu einu saman.

Undanfarin misseri hefur annað hugtak af þessu taginu verið mjög áberandi. Það er auðvitað „útrásin“. Heiða og Rúnar sem framleiða föt undir nafninu Nikita voru tekin tali í fylgiblaði Fréttablaðsins á föstudaginn var. Þar voru þau meðal annars spurð um hvort þau væru „að meika það“. Rúnar varð fyrir svörum.

„Okkur er mjög illa við að alhæfa eitthvað um það. Það fer til dæmis alveg eftir því hvernig maður skilgreinir „meikið“ sjálft. Til þess að hafa atvinnu af því að hanna og selja föt þarf maður þó klárlega að geta búið til eitthvað sem fólk er tilbúið til að borga fyrir að vera í og afhenda því það á réttum stað og stund á réttu verði og í réttum gæðum.“ Þegar orðið „útrás“ ber á góma fer hrollur um Rúnar. „Ég eyði litlum tíma í að hugsa neikvætt svo „þoli ekki“ er kannski of sterkt til orða tekið. Ég verð að viðurkenna að mér finnst „útrás“ eitt ofnotaðasta hugtak síðustu ára á Íslandi. Íslendingar eru búnir að lifa á því í áratugi að flytja fisk úr landi, það er „útrás“, en allt í einu var þetta orðin einhver sykurhúðuð skilgreining á því hvenær Íslendingar væru að meika það í útlöndum. Íslenskt fyrirtæki mátti ekki fá fyrirspurn frá útlöndum þá var eins og haft hefði verið samband frá fjarlægum hnetti og orðið „útrás“ komið í allar fréttatilkynningar. Mér finnst þetta bara þreytandi frasi,“ segir Rúnar.