Þriðjudagur 27. maí 2008

148. tbl. 12. árg.

H vað ætli fólk hefði sagt, ef eigendur nokkurra íslenskra fyrirtækja hefðu kvatt sér hljóðs fyrir fáum árum og tilkynnt að þeir hefðu ákveðið að slá hundruð og aftur hundruð milljarða króna erlendis og nota það fé til að færa út kvíar sínar og gerast stórvirkir í viðskiptalífi í öðrum löndum. Af þessu myndi velta og hagnaður þeirra aukast verulega og það væri mjög gaman. Hins vegar þyrfti einhver að vera til í að tryggja að þeir lentu ekki í vandræðum við að endurgreiða hin væntanlegu lán, og þess vegna hefðu þeir fengið þá hugmynd að íslenskir skattgreiðendur tækju eins og svona eittþúsundmilljarða erlent lán og biðu með það tilbúið, ef einhvern tíma yrði bið á nýjum erlendum lánum. Vaxtakostnaðinn af þúsundmilljarða erlendu láni ættu skattgreiðendur auðvitað að borga. Ætli það gæti verið að þeir hefðu verið spurðir hvort þeir væru gengnir af vitinu?

Það er ekkert víst. Nú virðist að minnsta kosti hafa tekist að tala og tala nógu lengi til þess að íslenskir stjórnmálamenn haldi að þeim beri að hlaupa eftir svona beiðni.

Í hálfan annan áratug hefur mikið verið lagt upp úr því að greiða niður erlendar skuldir ríkisins, með þeim ágæta árangri að ríkissjóður hefur greitt lán sín niður. Þetta – að greiða fremur niður skuldir en að lækka skatta meira og hraðar en gert var – var rökstutt með því, að ósanngjarnt væri að skattgreiðendur dagsins í dag lækkuðu skatta á sjálfa sig en geymdu skuldirnar handa næstu kynslóðum. Töluvert var til í þeirri röksemd og því ömuðust margir skattalækkunarsinnar ekki við þessu. En nú á að taka öll erlendu lánin aftur í einni svipan.

Svo koma jafnvel sjónarmið eins og, hey, ríkið heldur úti gjaldmiðli sem það vill að við notum, það á þá að gera svo vel að útvega okkur takmarkalaus erlend lán – sem virðist benda til að menn hafi verið þvingaðir til að hefja bankarekstur og til að taka erlend lán í honum upp á margfalda þjóðarframleiðslu. Eða að íslenskur gjaldmiðill sé ný ákvörðun sem komið hafi í bakið á bláeygum útrásarmönnum. Það má að vísu segja til að gæta sanngirni að íslensk stjórnvöld hafa ekki beinlínis liðkað fyrir því að viðskiptabankarnir gætu hreinlega skipt um gjaldmiðil.

Margur bóndi vill geta keypt erlendan áburð en þegar kemur að innlendri matvælaframleiðslu þá er mjög mikilvægt að menn sýni „skilning“ og verndi hana. Íþróttaáhugamaðurinn er alveg á móti tónlistarhúsinu – en segir að þeir sem „hafi þekkingu á íþróttamálum“ skilji nauðsyn nýrrar stúku. Sumir verða eðlilega mjög hneykslaðir þegar þeir eru sagðir bera „samfélagslegar skyldur“ – en svo kannski reynist „samfélaginu“ skylt að taka lán fyrir þá. Sumum þykir réttilega fráleitt að ríkið reki íbúðarlánasjóð og láni fólki til þess að eignast íbúð, – bankarnir munu meira að segja hafa kært þá starfsemi til erlendra eftirlitsstofnana – en aðrir sjá ekkert að því að ríkið láni öðru fólki hundruð milljarða til þess að reka alþjóðleg fyrirtæki. Það er gömul regla að þegar „fagaðili“ talar um „skilning“, þá er verið að heimta ósanngjarna fyrirgreiðslu við hagsmunahóp. Vel má vera að í „viðskiptalífinu“ þyki Vefþjóðviljinn hafa lítinn skilning á málum með því að vera ekki skilyrðislaust hrifinn af því að ríkið taki hundruð milljarða að láni, en það verður þá að hafa það.

Því á vitanlega ekki að gleyma að ríkið hefur á síðustu árum fengið töluverðar upphæðir í skattgreiðslur frá stærstu fyrirtækjum landsins, og margir starfsmanna þeirra hafa verulega góðar tekjur sem vænta má að skili talsverðum tekjuskatti til ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað er það til góðs að á Íslandi séu rekin öflug fyrirtæki sem starfi heiðarlega og gefa þá um leið öðrum skjól og aðstæður til að dafna. Það er skiljanlegt að menn vilji að þau geti lifað og dafnað og sértækar aðgerðir í efnahagslífinu hafa áður orðið á Íslandi. Vefþjóðviljinn er einfaldlega að fara fram á að menn tali hreint út um það, hvaða skyldur og hvers vegna, skattgreiðendur hafa við áhætturekstur annarra manna, og það meira að segja oft rekstur sem að verulegu leyti mun fara fram í öðrum löndum. Þegar lagðar eru til mörg hundruð milljarða erlend lán ríkisins, þá verða menn að vera reiðubúnir að svara því hvers vegna skattgreiðendur séu fengnir til þess, og ekki síður hver séu þá efri mörk slíkra skyldna þeirra.

Það þurfti meira en áratug af frjálslyndum stjórnvöldum til að greiða upp skuldir ríkisins, það er segja aðrar skuldir en til að mynda ábyrgðir á skuldum ríkisfyrirtækja eins og Íbúðalánasjóðs og Landsvirkjunar og lífeyrisskuldbindingar við ríkisstarfsmenn.