Mánudagur 26. maí 2008

147. tbl. 12. árg.

E inn skemmtilegasti hagyrðingur landsins var að senda frá sér bók með limrum. Nefnist hún Heitar lummur og meðal vísnaáhugamanna mun hún sjálfsagt seljast eftir því. Í þeirra hópi hafa Hjálmari Freysteinssyni lengi verið kenndar margar snjöllustu vísur sem gengið hafa milli manna og eftirsóttur hefur hann verið á hagyrðingamót. Var hún ekki eftir hann, limran sem fór sem eldur um sinu þegar einn daginn var ákveðið að embætti forseta Íslands skyldi notað með nýjum hætti en áður?

Hann vanhæfur kemur að verkinu
(Vigdís plantaði lerkinu).
Hvert barn má það sjá
að Bónus hann á:
Það er mynd af honum í merkinu.

Þegar Ingibjörg Sólrún bauð sig fram gegn Össuri Skarphéðinssyni um formannsembætti Samfylkingarinnar orti Hjálmar:

Bróðerni gleymt í bili
bítast nú eins og fól.
Enginn er annars svili
í orrustu um formannsstól.

Þessar eru reyndar ekki í bók Hjálmars og önnur auðvitað ekki limra. En þar eru ýmsar sniðugar. Þar yrkir hann um Gretti Ásmundarson og hefði hærulangur kannski átt að hugsa út í þetta áður en hann fól syni sínum að klóra sér á bakinu:

Ungur var Grettir með gort
við glímur og hverskonar sport,
hann var ólmhuga og ör
hann var útlægur gjör,
það var allt fyrir rítalínskort.

Undir heitinu Fjölnota kosningaloforð stendur þessi ljómandi limra:

Bærinn minn fegursti og besti
býður velkomna gesti,
þar er mannfólkið dús
þar er Menningarhús
reist á fjögra ára fresti.

Önnur sniðugheitabók kom út á dögunum, Fréttir frá mínu landi eftir Ármann Jakobsson norrænufræðing. Ekki er í henni sérlega mikið lesmál en skemmtilegt margt það sem er. Ein og ein setning á stangli, alltaf undir fyrirsögn, og verða þannig margar skondnar. Undir fyrirsögninni Geir Haarde fundar með norskum starfsbróður sínum stendur setningin: „Ég sem hélt að Geir Haarde væri norskur starfsbróðir sinn“. Á öðrum stað er hugleiðingin: „Stundum situr þú svo fjarska þægilega þegar einhver sem þú átt erfitt með að leiða hjá þér kemur aðvífandi og vill endilega að þú gerir eitthvað“, en þegar yfir þetta er komin fyrirsögnin Gaman þykir kerlingunni að, móður vorri, að erta oss vakna önnur hugrenningatengsl og menn sjá Ármann Jakobsson fyrir sér halda á stað að hefna Þórðar leysingjasonar, og er hann einhvern veginn eðlilegri hefnandi slíks manns en þeir Njálssynir.

Undir fyrirsögninni Hið árlega skattauppgjör sendir Ármann ungum sjálfstæðismönnum tóninn: „Meðan fólk er drepið daglega í Líbanon standa pabbadrengir vörð um þau mannréttindi ríkustu þjóðar í heimi að enginn fái að vita hversu rík hún er“, og má vissulega til sanns vegar færa að mörg er sú erlenda hörmung sem gerir innlend deilumál nauðsynjalítil í samanburði. Næst hyggst Ármann beina spjóti sínu að þeim sem berjast gegn stíflum á örævum og komugjöldum á heilsugæslustöðvar á sama tíma og sjálfsmorðsárásir eru gerðar á saklausa borgara í Ísrael, konur grýttar í Íran og fellibyljir eyða Búrma.

Undir fyrirsögninni Ein stór fjölskylda stendur spurningin: „Hvar annars staðar en á Íslandi nær partíið hámarki þegar tölvan er dregin fram og viðstaddir fara að rekja sig saman í Íslendingabók?“ og Ármann bendir á, að úr því sjálfum Snorra Sturlusyni datt ekkert snjallara í hug þegar reitt var til höggs en „Eigi skal höggva“, þá „þyrftum við hin kannski ekki að hafa áhyggjur af okkar eigin andleysi þegar streitan er hvað mest.“ En andagift Snorra til varnar má að vísu segja að þessi nærtæka athugasemd hans ratar þó á bók áttahundruð árum síðar og væri gaman að vita hvaða nútímatexti annar en Vefþjóðviljinn mun leika slíkt eftir. Fréttir frá mínu landi er skemmtilegt safn af athugunum og undarlegheitum sem gaman er að lesa uppi í koju. Og þessar tvær bækur sem hér hafa verið nefndar, tengjast í óvæntum punkti. Undir fyrirsögninni Á bókasafninu stendur athugasemd Ármanns: „Þessi tölva hefur nýlega verið notuð af einhverjum sem á við flösuvandamál að stríða“, og getur hann líklega tekið undir með rakara Hjálmars Freysteinssonar:

Afbragðs rakari Ragnar var
og raupsögur hans voru magnaðar,
margoft hann sagði
mæddur í bragði:
Flasa er aldrei til fagnaðar.