Fimmtudagur 29. maí 2008

150. tbl. 12. árg.
Smám saman hafa fleiri og fleiri áttað sig á því að baráttan verður að beinast að rót vandans. Hann er ekki sá að fíkniefnasalar selji skólabörnum dóp. Vandinn er að skólabörn kaupa dópið. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands fangaði kjarna málsins með þessum orðum í tilefni af forvarnardeginum síðasta haust: „Eina vörnin sem dugir er styrkur unga fólksins til að segja nei. Það er alveg sama hvað við fjölgum í lögreglunni, það mun aldrei duga.“
– Jón Kaldal í leiðara Fréttablaðsins 25. maí 2008.

Þ að eru út af fyrir sig nokkur tíðindi að stærsta dagblað landsins viðri þau sjónarmið í forystugrein að fíkniefnavandinn sé ekki bundinn við það eitt að ljótir fíkniefnasalar séu að störfum. Fíkniefnaneysla er persónulegur verknaður sem engum verður kennt um nema neytandanum sjálfum. Styrkur ungmenna til að segja nei þegar þeim er boðið dóp fer ekki eftir fjölda tollvarða og lögreglumanna. Hann eykst ekki þótt dópsalinn eigi yfir höfði sér margra ára fangelsi. Þetta hefur allt verið reynt án árangurs. Hefur einhver lent í erfiðleikum með að útvega sér dóp eftir að lögregla handsamaði menn með mikið magn fíkniefna í skútu síðasta haust?

Jón Kaldal leggur það til í fyrrnefndum leiðara að illa stöddum fíklum verði hreinlega gefið dóp og hreinar nálar til að lágmarka skaðann sem neyslan veldur.

Heilbrigðisyfirvöld geta tekið það skref að koma hér upp aðstöðu þar sem fíklar koma og fá sitt fix með hreinni nál. Á þann hátt er þeir komnir undir læknishendur. Sumum er ekki viðbjargandi en þeir væru að minnsta kosti komnir inn fyrir garðinn. Þyrftu ekki að svíkja eða stela fyrir næsta skammti með tilheyrandi hörmungum fyrir þá sem verða á vegi þeirra. Og það væri hægt að komast að því hverjir þeir eru og hvort þeir eiga börn.

Þessi leið er alls ekki gallalaus. Hún býður upp á misnotkun og það getur verið erfitt að meta hvar á vegi fíklar eru staddir. En hún ætti hið minnsta að gleðja þá sem telja að vondu fíkniefnasalarnir séu vandamálið. Þessi leið væri fíkniefnasölunum lítt að skapi því þeir myndu glata „dyggustu viðskiptavinum sínum. Hagnaður þeirra af dópsölunni myndi væntanlega snarminnka. Ætli rýr afrakstur hefði ekki meiri áhrif á hverjir leggja þessa iðju fyrir sig en nokkrar lögregluaðgerðir og hertar refsingar?